28. desember 2015

Vettlingar


 

Í nóvember tók ég þátt í samprjóni í vettlingagrúbbu á Raverly. Byrjaði á að prjóna með Smart garni og var komin langleiðina með þá en þá litu þeir meira út eins og lúffur og hefðu passað á skessu. Byrjaði aftur með Baby garni og prjóna nr. 2 1/2. Þá gekk betur og þeir smellpassa á kvenmannshendur. Sendi vettlingana ásamt íslensku konfekti til ættingja í New York. Held það hafi verið nokkuð góð jólagjöf.

Vettlingauppskriftina má nálgast á Ravelry og heita þeir Southernmost mittens eftir Ericu Mount.

 

 

 

19. desember 2015

Búin að öllu...

" Ertu búin að öllu fyrir jólin? " er spurning sem hljómar gjarnan rétt fyrir hátíðir. Svo var sagt við mig" Heyrðu, mér finnst þú vera svona týpan sem prjónar á alla, bakar nokkrar sortir og sýður þitt eigið rauðkál ..."

 

Ha?!? Umm, nei ég er EKKI hún. Vildi svo sannarlega það væri raunin en það eru ófá skiptin á aðventu sem ég hef verið á barmi taugaáfalls. Það er nú bara þannig að mig langar til að hafa kósí og nice og vera ekki að taka þátt í hlaupinu en það tekur stundum bara heilmikið á að vera á bremsunni, ef þið vitið hvað ég á við.

 

Og grínlaust, það er nú bara fullt jobb að passa upp á að standa sína plikt sem foreldri. Jólasýning. Jólamót. Jólabingó. Jólaball. Jólanesti. Þetta er endalaust.

En svo gefst tími inn á milli til þess sem mig langar til að sé gert, mín prívat Litlu-jól. Í dag náðist slík stund. Ég útbjó litla skreytingu á leiði pabba og við brunuðum í garðinn til að koma henni fyrir. Yndislegt veður og góð stund sem skiptir svo miklu máli fyrir sálartetrið.

Eigið góðan dag, gott fólk.

XXX

 

13. desember 2015

Við sækjum jólatréð

Hér á þessum bæ er engin hefð með jólatréð. Stundum notum við plast tréð sem okkur var gefið um árið notað. Það er svo raunverulegt að það fellir plast -barrið og þarf að ryksuga allt þegar það hefur verið skreytt og sömuleiðis þegar það er tekið niður í janúar. Stundum höfum við keypt jólatré af góðgerðarsamtökum en 2012 fórum við og sóttum tré í Vindáshlíð. Það var svo gaman og þetta árið langaði okkur til að endurtaka leikinn. Daginn sem auglýst var opið í Hlíðinni gerði brjál-veður svo ekkert varð úr en þar sem kona þekkir konu var leyfi fengið til að fara á eigin vegum, bara leggja inn á reikning Vindáshlíðar fyrir trénu.

Lögðum af stað í myrkri og mætt við sólarupprás. Ahhh, Hlíðin mín fríða.

Brunakuldi, -7c logn og snjór.

Hittum vinafólk og samnýttum bílkerruna fyrir trén.

Vorum með nesti og heitt í brúsa. Umm, yndislegt. Held að allir hafi verið nokkuð sáttir en þreyttir, Litlimann lagði sig meira að segja í bílnum á heimleið.

Nú bíður jólatréð úti á palli og við inni í hlýjunni að hlaða batteríin fyrir næsta verkefni.

Þar til næst,

XXX

 

30. nóvember 2015

Aðventa

 
Nú líður að jólum. Það hefur nú varla farið fram hjá neinum. Litlimann er farinn að hafa ákveðnar hugmyndir um hvað þarf að að gera / eiga / fá fyrir jól. Sumt er skemmtilegt að gera saman í undirbúningi jóla eins og að baka piparkökur og mála þær með sykurgumsi. Það finnst Litlamann gaman - og gera síðan upp við sig hvaða köku skal borða fyrst.

Jóladagatal er bráðnauðsynlegur óþarfi á aðventu. Í gegnum tíðina hefur borist inn á okkar heimili allskonar dagatöl. Nammidagatöl. Myndadagatöl. Dótadagatöl. Allt saman gríðarlega spennandi og nú í þetta sinn dró ég úr geymslunni handgert dagatal eftir frænku mína sem hægt er að setja í litlar gersemar. Ég veit ekki hvor er spenntari, hann að opna pokana, eða ég að handfjatla þetta feikilega fallega handverk.

 

 

 

3. nóvember 2015

Vettlingastuð

Ég varð að kaupa uppskriftina af þessum vettlingum, svona í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna. Þeir heita Gudrun mittens og byrjaði ég á þeim í ágúst. Ég ýtti þeim til hliðar þegar ég var búin með hægri vettlinginn því ég var ekki alveg sátt, án þess að vita hvað væri að honum. Ákvað að halda samt áfram með hinn í október og nú þegar þeir eru nærri tilbúnir er ég reynslunni ríkari. Garn í svona miklu útprjónuðu stykki verður að "renna" betur þ.e. það verður að vera hægt að toga þá og teyja svo þeir verði "jafnari." Get bara ekki útskýrt þetta betur. Sem sagt, hef lagt þá aftur til hliðar því ég á eftir að ganga frá endum, þvo þá og leggja til. Þá verða þeir (kannski) flottir.

Þá er best að snúa sér að einhverju nýju...

Þar til næst

X

 

19. október 2015

...og bleik húfa

Fékk hugmynd að húfu...ætlaði reyndar ekki að gera meira af röndóttu í bráð eftir jarðarberjapeysuna en...
...hafði hugsað mér eitthvað í líkingu við þetta...
...þolinmæðin var bara búin og ég læt þetta duga. Voða sæt samt og hef fulla trú á að litla hnátan sem fær húfuna sprengi krúttstuðulinn með þessa á kollinum.
Þar til næst

 

 

5. október 2015

Ökklasokkar

Þessir sokkar eru handa mér. 100% cascade ull, enginn gerviþráður. Það á víst að vera betra að hafa um 20% nylon/polyester til styrkingar. Við sjáum til, er á meðan er ;)

Úrtakan á tá var alveg ný fyrir mér. "Cast off kitchener stitch." Allt á youtube ;)

 

Litlimann hefur ofan af fyrir sér sjálfur þessa stundina við að búa til spil. Jamm, sambland af spilasokk með yfir 20 flettispjöldum og teningaspili. Vill einhver spila við mig?

 

27. september 2015

Free spirit

Ég er að verða nokkuð klár í sokkaprjóni, svo ég monti mig aðeins. Nýja aðferðin sem ég lærði við að taka upp lykkjur á hælstalli er margfalt fallegri en sú sem ég hef gert hingað til. Engin leiðinda göt að bögga mig. Það er alltaf hægt að læra nýja tækni í prjóni :)

Annars er ég mestmegnis í almennum heimilisstörfum þessa dagana, þvo þvotta, elda og aðstoða Litlamann með heimanámið. Það getur verið heljarinnar mál stundum því hann er nú ekki á því að láta einhvern bóklestur tefja sig. Eða eins og frænka hans orðaði það: "he is a free spirit little boy."

 

 

2. september 2015

Sokkar

Ég er bara alveg að missa mig í sokkaprjóni. Þetta eru lestarsokkarnir frægu. Er búin með 4 pör og ætlaði að láta það gott heita.

En rakst svo á myndband með hvernig hægt er að taka upp lykkjur á hælstalli á fallegri hátt en það sem ég hef gert.

Svo að ég hef fitjað upp á pari fimm...

Þar til næst

XxX

 

28. ágúst 2015

Ævintýri

"Mestu vonbrigði okkar í lífinu spretta af tækifærum sem gengu okkur úr greipum og áhættu sem við tókum ekki."

Það var akkurat þetta sem gerði útslagið með að ég ákvað að ég yrði að fara til að horfa á sundgarpinn minn keppa á ólympíuhátíð æskunnar sem haldin yrði í Georgiu.
Landinu. Ekki fylkinu.

Það var alveg fyrirsjáanlegt að þetta yrði ævintýri þar sem ég reyndi að afla mér upplýsinga um borgina Tbilisi áður en farið var af stað en það var svo sem ekki úr miklu að moða. Eitthvað um að landið hefði verið hluti af fyrrverandi rússaveldi og ætti sér mikla sögu.
En hér er ferðasagan í stuttu máli:

Eitthvað voru Georgian airlines búnir að undirbúa sig fyrir hátíðina því svona leit flugvélin út sem við flugum með frá Amsterdam. Ekki slæmt flug en kannski ekki það sem við erum vön. Eða eins og húsbóndinn orðaði það svo pent: "Hvað draga þeir upp úr töskunum næst? Hænur?


Hótelið. Já ekki svo slæmt. Blessunarlega var okkur úthlutað herbergi á 4. hæð þar sem umferðargnýrinn var mikill frá götunni, en aðeins minni á fjórðu...og þessa viku sem við vorum þarna gátum við ómögulega lokað glugganum. Nú, hvers vegna töluðuð þið ekki við starfsfólkið? Tja, þarna komumst við fyrst að því að í Georgiu talar fólk almennt ekkert annað en georgísku. Sumir tala jú rússnesku en æ...við vorum svo ryðguð í henni ...


Ólympíuhátíð æskunnar. Greinilegt var að íbúarnir höfðu gert sitt besta við undirbúning og flest mannvirkin voru splunkuný. Keppnislaugin var t.d. tekin í notkun í maí síðastliðnum. 
Setningarhátíðin var stórglæsileg. Það kitlaði aðeins Íslendingsstoltið að sjá íslenska fánann borinn inn á leikvanginn. Eina sem skyggði á setninguna var að það var ekki alveg farið eftir öryggisstöðlum þegar flugeldum voru skotið á loft. Litlu mátti muna að þeir kveiktu bara í öllu klabbinu.Það var vel búið að keppendum. Þeir voru lokuðu þorpi með gæslu og alltaf þegar þeir fóru á milli staða í rútu voru þeir í lögreglufylgd með blikkandi ljósum. Sunddrottningin mín stóð sig vel miðað við frekar töff aðstæður. En hún bætti tímann sinn í einu sundi og er reynslunni ríkari.Svo var það borgin Tbilisi. Alveg mögnuð. Ég hefði viljað hafa meiri tíma til að skoða mig betur um. Við vorum þarna í lok júlí og hitastigið var alveg hreint ærandi, milli 34- 43°c alla daga. Erfitt að vera lengi útivið í einu og frekar auðvelt að villast þar sem götumerkingar ekki sem bestar... eða skrifað á óskiljanlegu tungumáli.


Síðan var það allt hitt. Maturinn, menningin og götusalarnir. Allt svo öðruvísi og spennandi.

Tbilisi, Georgia. Bara ævintýri.
Þangað verð ég að komast aftur.


xxx