29. mars 2013

Síðan síðast


Litli mann fékk hlaupabólu og það ekkert smávegis. Hann var meldaður veikur í 8 daga. Blessunarlega hefur hann verið heilsuhraustur hingað til en þessi veikindi tóku hraustlega á, úthaldið hjá honum var ekkert á áttunda degi en það er allt að koma.


Prinsessa #2 er alltaf að selja eitthvað til að safna í sundmótasjóðinn sinn. Nú síðast var hún að selja kartöflur, svo að hér hafa verið kartöflur í öll mál. Soðnar, kryddaðar, franskar, kartöflumús og síðast en ekki síst bökuð kartöflumús í ofni. Mmmm...


Öðru hverju er ég beðin um að skrautskrifa í bækur og kort. Það er alltaf jafn skemmtilegt en vinnan er mikil á bak við eitt kort. Ég vona bara að þiggjandinn kunni að meta það.


Ég var búin að einsetja mér að komast í bústaðinn eitthvað um páskana og það tókst. En það er lítið frí og afslöppun í því. Í vetur byrjaði ofn í stofunni að leka en sem betur fer er bústaðurinn svo illa einangraður í gólfinu að vatnið rann bara í gegn - já stundum er gott að byggt var af vanefnum fyrir 30 árum.
En semsagt...


...við skötuhjúin hjálpuðumst við að koma upp nýjum ofni ogLitlimann þvældist fyrir aðstoðaði á hliðarlínunni.


En meðan húsbóndinn dundar við að dytta að bústaðnum fer ég í gönguferðir um nágrennið. 
Þessa þrjá daga sem við dvöldum var yndislegt veður, hitinn um 5°c en vindkælingin var svolítil - reyndar brunakuldi þegar komið var upp á hól...


en vel þess virði þegar á toppinn er komið.

Biskupstungur 2013

Eftir að rafmagnið kom í bústaðinn er gott að geta setið á kvöldin við rafmagnsljós og lesið já eða prjónað. Ég lauk við þessa litlu nýburapeysu en þegar kemur að velja tölur fyllist ég alltaf valkvíða.


En þetta varð lokaniðurstaðan. 


Peysan er prjónuð frá hálsmáli niður og uppskriftin er fríkeypis á Ravelry sem nýburapeysa. En það er hægt að nálgast hana í stærri stærðum gegn nokkurra $ greiðslu.

En þar til næst þá hef ég augu mín til fjallanna...


16. mars 2013

Vordagur tvö

Ég var að leggja lokahönd á óróa í dag...


...og er svo sátt við útkomuna. Óróinn færir einhvern veginn sólina inn í stofu.
Hugmyndina fékk ég úr bók Edie Eckman
Ég á þegar þrjár bækur eftir hana og þær eru allar svo fallegar.


9. mars 2013

VordagurUmm,já. Vor í lofti. Nú skal koma vor eftir páskahretið í vikunni. 
Eldhúsborðið fyllist af allskonar dótaríi. Ég hekla núna sem aldrei fyrr.
Bókin sem er oftast opin þessa dagana og liggur á borðinu heitir Connect the Shapes, crochet motifs . 
Þessi bók er brjálæðislega falleg. Mæli hiklaust með henni.

Litlimann er auðvitað sjálfskipaður sérlegur aðstoðarmaður og ráðgjafi. 
Hann er á fullu þessa dagana að æfa sig í fínhreyfingum og perlur og litabókablöð um allt hús.
Hann gerir mann stundum alveg brjál !!!
Hann tók t.d. alveg upp á sitt einsdæmi að skreyta stofuna...


...en hver stenst þetta litla rófuskott?


5. mars 2013

Kuldi

Nú er svo kalt á Fróni að flöskurnar þurfa líka peysur.
Brrrr...
3. mars 2013

Sjal

Ég byrjaði á þessu sjali 1.febrúar og var að dunda mér við það þegar tími gafst til.
Vinnan og heimilisstörfin hafa tekið allan minn kvóta þennan mánuðinn en það styttist í páskana og vorið.
Ég vona innilega að það verði tími til að bregða sér upp í bústað
yfir páskana. Það er svo gott að komast upp í sveit og skipta um 
umhverfi.Stekkjarkot 28.febrúar 2013