19. maí 2013


Börn eru frábær í þessu, að læra eitthvað nýtt. Ég fór með Litlamanni í sveitaferð með leikskólanum hans. Oh, hann var svo spenntur. RISA stór rúta, meira að segja tvær, fór með okkur á vit ævintýranna. Þetta var allt svo spennandi. Þegar í sveitina var komið voru dýrin skoðuð fyrst...


hundurinn og hænurnar voru svolítið spennandi...en það var ekki það sem þurfti að kanna sérstaklega heldur bæjarlækurinn...

"Hvað er nú þetta eiginlega?" 

Ég hef verið líka í minni eigin könnunarferð í hekli og prjóni. Eiginmaðurinn spurði mig hvað ég væri að búa til. "Ég hef ekki hugmynd um það" svaraði ég. Ég hef ekki verið að búa til eitthvað sérstakt, bara að gera prufur. Og það er þrennt sem ég er búin að læra:

1. Hekla saman dúllur án þess að klippa á garnið. Það var rökrétt afleiðing að læra það eftir raunir mínar með alla endana með síðasta teppi sem ég gerði. 

2. Fitja upp lykkjur fyrir prjón með heklunál. Tja, það var bara eitthvað sem ég rakst á þegar ég var að vafra á veraldarvefnum og varð bara að prófa.

Þetta gula stykki er afrakstur þeirrar vinnu. 

Algjörlega tilgangslaus tuska en gæti orðið grunnur að einhverju meira. Kannski trefill? Eldhúsgardína? Pils? 

3. Tvíbandprjón. Já, ég skellti mér að námskeið eina kvöldstund með nokkrum áhugakonum (eða svona meira pró!) af Suðurnesjum um prjón. Ég var pottþétt með minnstu reynsluna af prjóni þarna og viðurkenni fúslega að þetta var strembið. Og nú er bannað að fara að hlæja að stykkinu sem gert var á ÞREMUR klukkutímum...

Fram eða...
...aftur
Sko, þetta er sama stykkið, en báðar hliðar  sléttar.  Ég hef ekki hugmynd um  til hvers ég ætla að nota þessa færni heldur en skítt með það. Það er bara svo gaman að læra eitthvað nýtt.


13. maí 2013

Blómaábreiða

Það fer ekki á milli mála, ég er farin að bíða eftir sumrinu og ég get svoleiðis svarið það að það kom á fimmtudaginn síðasta. Þá gat ég drukkið kaffið mitt úti í garði. Já með góðum vilja var það hægt, ég held að hitinn hafi farið í 10°c. Þvotturinn á snúrunni, grillið komið út á sinn stað og trén farin að bruma.


Og þá er ekki úr vegi að frumsýna nýjasta heklverkefnið mitt. Ekki það að ég hafi byrjað á því fyrir stuttu, neihei, ég byrjaði á því fyrir einu ári síðan. Gerði nokkrar dúllur í einu og tók svo pásu. Meginástæðan fyrir því er sú  að ég hafi ekki alveg verið búin að hugsa til enda hvernig ég ætlaði að festa dúllurnar saman. Svo voru það allir endarnir sem þurfti að ganga frá, eina sem ég sagt um það er að þeir voru MARGIR. 
En svona líta sjötíu og tvær sexhyrndar dúllur út.
.