28. desember 2012

Á aðventu 2012


Eins og oft áður er desember mánuður mikilla anna. 
Einhverra hluta vegna gefst lítill tími til alls sem á að gera
en einhvern veginn smellur allt saman.

Í byrjun desember brunuðum við upp í Vindáshlíð til að velja okkur jólatré.
Við höfum talað um að fara í mörg ár en nú létum við verða af því
Og þetta hitti alveg í mark fyrir utan frosnar tær og fingur  og samdóma álit 
allra að þetta verði gert aftur fyrir næstu jól

Frá Vindáshlíð, Írafell og Skálafell í bakgrunni
Auðvitað var "rétta" tréð falið lengst inni í skógi og
þrautinni þyngri að koma því niður á veg.
Tréð varð líka að vera STÆRSTA og BESTASTA tréð.
Ég held að það hafi verið búið að saga neðan af því hátt í þrjá metra
þegar það var komið í jólatrésfótinn.


Svo hefur verið bakað á S34. Ég baka nú reyndar allan ársins hring
en það er eitthvað svo galið og um leið skemmtilegt að hafa klístraða
fingur með í bakstrinum.


En eitt stykki handarbrák varð líka að vera með á aðventu.
Voðalega varð prinsessa #2 súr yfir því að geta ekki tekið þátt í öllu 
og þá sérstaklega að missa af aðventusundmótum. 
En þetta hefði getað verið verra, vel sloppið í þetta sinn.


Stundum gafst tækifæri til að ganga frá lausum endum.
Þessar dúllur gerði ég í sumar
en hafði sleppt því að ganga frá endum.


Svo voru Aðeins fleiri endar að ganga frá á haustteppinu.



En við gátum líka notið jólaljósanna sem allir hinir hafa lagt mikinn metnað í.




Aðfangadagskvöld rann svo upp öllum að óvörum með kalkún og öllu tilheyrandi.
Það var úrvinda húsfreyja sem fór að sofa þá nóttina.


Í lok árs er svo hefð fyrir því að líta yfir farinn veg.
Þegar ég skoða dagbókarfærslur ársins sé ég hversu mikið ég
hef áorkað. Og er barasta nokkuð stolt.
Stolt af fjölskyldunni minni og fallega heimilinu okkar. 

Ég óska fjölskyldu og vinum nær og fjær ...


... GLEÐILEGT NÝTT ÁR.




4. desember 2012

3. desember 2012

2. desember 2012

Hálstau

Ég veit ekki hvort að orðið trefill sé nógu fallegt yfir það sem ég var að ljúka við.
Uppskriftina að þessari dásemd er að finna í haustblaði Interweave Crochet.
Tær snilld.






1. desember 2012

Jólin nálgast.
Ég vil svo gjarnan halda öllu innan skynsamlegra marka á aðventu. 
Það er svo auðvelt að ætla að gera ALLT fyrir jólin.
Þá er gott að staldra við og spyrja hvað er það sem skiptir máli.
Þessi pistill hér þörf áminning.

27. október 2012

Haust teppi

Garnið: Woolcott frá Hjertegarn

Uppskriftin: Af Raverly
Rakti upp 3x grunnröð, las vitlaust og var ekki sátt við lengdina 

Teppið fær að koma með á helstu viðburði. Sundæfing

Kúritími eftir langan vinnudag

Við sjónvarpið
Vinsamlegast leiðið hjá ykkur teppið sem bíður úrvinnslu á stólbakinu

Leikið saman

Komin með 25 %



8. október 2012

Köngulló


Eftir SokkaGloríuna var kominn tími á upprifjun á vettlingaprjón.
Ég gerði fyrst þessa bláu. Voða mjúkir og sætir en of litlir á Litlamann.

Þar sem sjálfsálitið í prjónaskapnum hafði aukist til muna
var fitjað upp á þeim næstu.


Tvílitir og ekki svo mjög fljótgerðir. 
Seinni vettlingurinn vafðist eitthvað fyrir minni, þurfti að rekja hann upp amk. 2x .
 (Drengurinn er varla með tvær hægri hendur !!!) 

Mér til málsbóta varð ég fyrir stanslausri truflun (fjórar rallandi skvísur í sumarbústað). 

Ég mæli heldur ekkert sérstaklega með því að vera drekka eitthvað sterkara en eplasíder þegar verið er að vanda sig við "flókið" munstur.

Köngulóarvettlinga má nálgast hér og uppskrift að húfu í stíl má nálgast hér.




7. október 2012

Er þetta ekki bara vinalegur staður ?


Flúðir september 2012

Ég var að horfa á imbann og þar var verið að ræða við eldri mann. Einn af þessum sem er að gera eitthvað af hugsjón einni saman. Þessi höfðingi var að græða landið sitt, Ísland.
Lengst uppi á öræfum.

Flúðir september 2012
Fréttamaðurinn spurði: "Hvers vegna hérna? Af hverju að græða landið hér? " 

Hólaskjól september 2012

Og svarið kom svo:  "Er þetta ekki bara vinalegur staður?"

Dverghamrar september 2012

Úff, já. Er það ekki bara málið á Íslandi? Það er alveg sama hvar við drepum niður fæti, þar er vinalegt. Lengst uppi á öræfum, niður í fjöru, sveitinni okkar eða í gleðskap með fjölskyldu/vinum. 

Vík í Mýrdal september 2012
Vinalegt




23. september 2012

Banana- og karamellumúffur 

í boði Nigellu



Þessar múffur eru fljótlagaðar og gott að nýta vel þroskuðu bananana í uppskriftina.

3  bananar
125 ml jurtaolía
2 egg
250 g hveiti
100 g sykur
1/2 tsk natrón
1 tsk lyftiduft
150 g karamellu- eða súkkulaðibitar.

Ofninn stillur á 200°c
Bananar stappaðir og lagðir til hliðar. Olían mæld og eggin hrærð út í hana.
Þurrefni sett í skál, síðan eggja/olíublönda í og að lokum stappaðir bananar.
Súkkulaðið hrært saman við eða setja deig í form, svo súkkulaðibita (Rolo) og svo deig yfir

Bakist í 20 mínútur.  Dugar í 12-14 múffur.  
Verði þér að góðu.


8. september 2012

Kría

Nú er haustið komið, skólarnir byrjaðir og farfuglar að búast til ferðalaga. Hér á bæ hefur verið nóg að gera í almennu heimilishaldi og að loknum vinnudegi er engin löngun orka í handavinnu. Þá er nú gott að hafa sjónvarpsdagskrá sem skilur ekkert eftir og reynir ekkert á heilann...

... en lengi er von á góðu.

Sjalið Kría
Uppskriftin er úr Heklbók Þóru. Umferðirnar urðu 57.  Ég breytti aðeins uppskriftinni því að þegar ég var komin með ca. 20 umferðir fannst mér "grunnlínan" aðeins of stíf svo að ég gerði síðasta stuðulinn í umferð tvöfaldan (tvíbrugðinn stuðull). Garnið er Einband.

8. ágúst 2012

Kanntu að prjóna sokka ?


Allt sem ég les og allt sem ég sé þessa dagana eru prjónaðir sokkar.
Hellen Sigurbjörg bloggaði um 21 sokkapar. TUTTUGU OG EITT PAR ! Og það ætlað til gjafa á ókunnuga fætur langt í burtu. Ég fyllist bara lotningu, þvílík elja og óeigingjarnt starf hjá henni.

Ég hef líka verið að hlaða niður prjóna- og heklbækur á Kyndilinn minn. Keypti meðal annars tvær bækur eftir Stephanie-Pearl-McPhee. Sú kann aldeilis að skrifa fyndnar prjónasögur. Sögurnar eru úr hennar eigin lífi en hún skrifar svo frábærlega um hversdagslega hluti að maður engist um af hlátri. Hún heldur líka úti bloggi sem er líka mjög skemmtilegt að lesa og skoða. Stephanie telur að allir geti prjónað sokka.

En sem sagt...hmm...jæja. Ég lagði af stað í ævintýrið. Það var nú svo sem ekki alveg slétt...mestmegnis hálfbrugðið.

Ég keypti garn sem virtist vera gott í sokka - var búin að lesa að gott væri að þeir væru úr amk. 70% ull og restin einhverskonar gerviefni. Ef þig langar til að vita hvernig hægt er að finna út, úr hverju garn er búið til (kannski búin að týna miðanum utan af garninu) þá er Stephanie með mjög góðar lýsingar í bókinni sinni sem felst í því að kveikja í garninu !!!

Alltjént, ég þurfti ekki að kveikja í garnenda því miðinn var vel festur á. 
Ég dró upp bókina eftir Erlu, Lærðu að prjóna og átti svo ljósrit með góðri lýsingu á sokkaprjóni sem ég man alls ekki hvar ég stal úr. Ég get nú ekki sagt hvort sokkhællinn sé franskur eða eitthvað annað en fyrir einhvert kraftaverk varð til sokkur.

Það var nokkuð stolt kerling í búi þegar einn sokkur var tilbúinn.  Og þá var bara eftir að prjóna hinn. Það var ekki eins flókið í annað sinn enda hafði ég lært nokkuð af fyrri mistökum.
Og hér hafið þið það....

ykkar elskulegust getur prjónað sokka .

29. júlí 2012

Steypiregn




Til að fá regnboga þarf rigningu. 
 Og útrúlegt en satt segir maður bara LOKINS. Þetta var alveg orðið fínt af þurrki. 

En mikið er Litlimann þurftafrekur, hann á enn erfitt með að hafa ofan fyrir sér sjálfur. Ég held að ég sé búin að finna upp á öllu sem fylgir því að skemmta 3 ára trítli.






En til allrar hamingju þurfa litlir menn að hlaða batteríin... og þá fær skemmtikrafturinn smá pásu.







25. júlí 2012

Sundpoki


Stundum kemur yfir mig löngun til að sauma eitthvað með fínu saumavélinni minni. Útkoman er slík að það verður að taka viljann fyrir verkið.
En pokinn er praktískur, feikistór og rúmar sunddót fyrir tvo, auk greiðu og sjampóbrúsans -meikdollan er best geymd heima ;-)   Það verður samt að viðurkennast að innaná vasinn fyrir sundkortið og símann er flottur.