23. júní 2013


Hvatning og hrós skipta svo miklu máli. Sumir hafa kallað það H-vitamín, Hrós vítamínið. 
Síðustu daga hef ég fengið H-vítamín í stórum skömmtum.

#1
Tilnefning til Hvatningarverðlauna Reykjanesbæjar "fyrir störf eða verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni." Mætti prúðbúin til að taka á móti viðurkenningarskjali, auðmjúk og glöð.
Eftir formlega athöfn spjallaði ég stuttlega við góðan kennara og þegar ég minntist á að mér fyndist ég ekkert vera að gera eitthvað meira en aðrir, ég væri bara að sinna starfi mínu þá sagði hún "já, EN þú gerir það með ástúð og hlýju með hag nemanda fyrir brjósti." Þar með bráðnaði mitt hjarta.
Takk.

#2
Á einum degi fékk ég tvisvar sinnum hrós fyrir þessa litlu bloggsíðu mína. 
"það er svo gaman að heyra eitthvað jákvætt og fallegt" og
"handavinnan þín er svo falleg."
Takk.

#3
Ég hef verið að setja myndir af handavinnunni minni inn á Ravelry. Og viti menn, heklhönnuður vildi nota mynd af handavinnunni minni á bloggsíðu sinni sem dæmi um útfærslu á hennar verkum. Ef það er ekki búst fyrir áhugamanneskjuna um handavinnu þá veit ég ekki hvað gerir það.
Takk.

Rabbabara-Uppskera Ársins 2013  á  S34   :)

19. júní 2013

Skin og skúrir

Loksins, loksins, loksins komin í sumarfrí. LOKSINS.
Eftir viðburðaríkan og strembinn vetur er ég kominn í sumarfrí...


...eða sko frá launuðu vinnunni. Það er síður en svo lognmolla á þessum bæ.

Eins og ég hef áður minnst á þá erum við stoltir hluthafar í sumarbústað. Og honum þarf að sinna. Það er alltaf eitthvað, nú var drifið í að ganga frá framkvæmdum síðasta sumars þ.e. að tengja nýja rotþró. Auðvitað er Litlimann ekki langt undan að taka út verkið.


Svo þarf að tyrfa yfir allt saman. 160 fermetrar. Fjögur bretti af torfi. 30 hjólbörur af möl og mold flutt til.
En margar hendur vinna létt verk.


Af sjálfsögðu var verkið tekið út af Litlamann...mér sýnist það vera þumlar upp!


Í bústaðnum er líka einhvern veginn alltaf tími fyrir þetta "allt annað"




En það skiptist á skin og skúrum. Í þessum mánuði kvöddum við góðan mann sem háði baráttu við krabbamein. Nágranni, fjölskyldufaðir, dugnaðarforkur, ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd og síðast ekki síst með rólyndisgeð sem öllum leið vel nálægt. Hans verður sárt saknað.


En svo skín sólin aftur. Sama dag og jarðarförin var fengum við skilaboð um að í heiminn væri komin litil stúlka. Svo agnarsmá. Fædd fyrir tímann. Ég orðinn frænka á nýjan leik. Bara yndislegt.


Við höldum ótrauð áfram...


Framundan er AMÍ sundmótið sem er búið að stefna að í marga mánuði. Undirbúningurinn hefur verið nokkuð strangur og við hjónin skiptumst á að mæta á foreldrafundi og "undirbúningsmót." Bóndinn er áhugasamari og orðinn sunddómari en ég læt duga að sitja á bakkanum og sjá til þess að fylla á ísskápinn.


Nú þarf bara að finna nýja spennandi handavinnu sem hægt er dunda við á milli verka sem sundfararstjóri.