16. september 2013

Ný heklbók

Nú er komin ný íslensk heklbók, María heklbók, og ég get ekki séð að hún gefi fyrri bókinni neitt eftir. Ég er ekki viss um að ég geri allt úr bókinni en sumt er bara skyldueign heklara, og það er þessi bók sannarlega.

Í bókinni er uppskrift af kraga eða hálsmeni sem kallast Viktoría. Nokkuð skemmtilegt að búa til en mín Viktoría líkist nú meira drottningunni af Saba.

14. september 2013

...og enn fleiri húfur

Það virðist eins og allir í kringum mig séu að búa sig undir harðan vetur  - Lóa mín, þú fært tækifæri til að nota nýju úlpuna þína ;)  Haustið ætlar að vera stutt þetta árið, ég hugleiddi einn morguninn í vikunni hvar rúðuskafan fyrir bílinn væri því að það virtist vera hrím á bílrúðunum.
Ég er nú frekar róleg yfir þessu, planið að vera bara inni og prjóna/hekla ef að veðrið verður slæmt.
Það verður að minnsta kosti engum kalt á skallanum sem ég þekki því að ég var að ljúka við enn eina húfuna úr Húfubókinni góðu...


Svo verð ég að deila með ykkur nýjasta æðinu á þessu heimili, Hjálparsveins-vettlingar. Tengdó prjónar vettlinginn en ég hekla augun og sauma munn. Ekki annað hægt en að brosa að þessum.

7. september 2013

Haust


Það er komið haust. Lítið annað hægt að segja um það en ef þig langar til að hekla utan um krukku þá má finna uppáhalds uppskriftina mína hér.

1. september 2013

Húfa

Ég er svo hrifin af húfunum í Húfuprjón bókinni að það er bara ekki hægt að hætta. Ég er að klára þá þriðju en smá galli á gjöf Njarðar...ég virðist prjóna voða laust miðað við uppskriftirnar í bókinni því húfurnar ætla að verða í xl stærðum ef ég fer ekki í það að nota minni prjóna eða minnka uppskriftirnar.
Já, ég veit, gera prjónafestuprufur fyrst kemur í veg fyrir þetta. En ég hugsa sem svo að það er ekki svo mikill efniskostnaður í eina húfu....og  tja... ég hlýt að finna einhvern höfuðstóran/súper hárprúðan til að nota húfurnar.


Þessi húfa átti að vera með einhvers konar loftlykkjudúllerí á kollinum sem mér fannst einhvern veginn ekki gera sig svo að ég skellti í staðinn í krullur. Miklu betra.
P.s.  Mig langar til að þakka Þórunni og Óskari fyrir lánið á verðlaunagarðinum fyrir myndatöku. Garðurinn ykkar svo fallegur, og ekki síður í grenjandi rigningu. Takk, æði.