30. desember 2016

Síðan síðast...

Úff púff...mikið svakalega líður tíminn hratt. Ég dembi hér inn myndum síðustu mánaða. Viðburðaríkir og margt spennandi inn í gráum hversdagsleikanum.


Oktober var sérstaklega mildur í veðri og litadýrðin var stórfengleg, þetta var útsýnið einn morgunn þegar ég var að drekka teið mitt. 

Sundmót hjá drottningunni og nú er Litlimann líka farinn að keppa. Þá er nú gott að hafa prjónana með. Hérna er ég að vinna í Stephen West sjali sem vonandi mér tekst að ljúka sem fyrst á nýju ári.


Náttúran er sko ekki svört/hvít á landinu okkar. Ég fór í stuttar en góðar gönguferðir á Reykjanesinu. Merkilegt hvað það heillar mig allt það smáa i umhverfinu. Þessa sveppi fann ég við fjallið Þorbjörn.


Litlamann -sem er nú ekki svo lítill lengur- hafði saman að gönguferðum líka

Síminn minn er fullur af allskonar mannamyndum sem teknar voru í október, og ætla ég bara að hlífa ykkur (og fólkinu mínu) við myndbirtingum hér. Þessi mynd er mjög lýsandi um þær ...þarna má sjá mig fyrir miðju með prjónana út úr hausnum...    :)


Náði að ljúka við enn eitt sjalið en á því miður ekki góða mynd af því. Garnið keypti ég í Helsinki í sumar og heitir Tukuwool og líkist íslenska einbandinu. Uppskriftin heitir Puddle Stomper eftir Kirsten Kapur. 



Nóvember var aftur á móti mjög svo blautur og dimmur mánuður. Svona var útsýnið út um gluggann nokkra daga í röð. 


Þá er nú gott að hafa eitthvað fyrir stafni innandyra og ég skellti mér í kúrs í Listaháskólanum. Þetta er annar kúrsinn sem ég fer í á þessu ári og leyfist mér að segja að þetta er svo gaman. Kynnast nýjum aðferðum, víkka sjóndeildarhringinn og hitta nýtt fólk. Þetta er svolítil aukavinna og tekur á að vinna út fyrir þægindarammann en ég er að fíla það!


Sko þetta gat ég í !!!



Af einhverjum dularfullum ástæðum komst mús inn i kjallarann hjá okkur í október. Jæks, þá upphófust músaveiðar en ekki nóg með það heldur fundust líka mýs (fleirtala!) í vinnunni. Sögur bárust af fleiri músum og það má segja að það hafa farið að birtast mýs á ólíklegustu stöðum.



Litlimann átti svo 8 ára afmæli í nóvember. Húrra! Ákveðið var að hafa Harry Potter þema í veislunni og var okkar maður nokkur sáttur.


Aðventan leið á ógnarhraða með miklu amstri en til mikillar gleði á þessum bæ fór loks að snjóa rétt fyrir jól.


Mýslunum fjölgaði hér en sem betur fer bara þeim sem voru prjónaðar. Ef þú vilt spreyta þig í að búa þessar til þá heita þær Christmas mouse á Ravelry og uppskriftin er fríkeypis.


Þessir vettlingar rötuðu í jólapakka þessi jólin og þeir eru ofurkrúttaðir. Uppskriftina er hægt að finna í norskri vettlingabók sem ég man bara því miður ekki hvað heitir en hana fékk ég lánaða á bókasafninu.



Við missum okkur ekkert hér í bakstri fyrir jólin hér á þessum bæ en það er nú eiginlega skylda að skutla i eina sort. Ekki satt?


Við erum svona meira fyrir að láta aðra sjá um þetta fyrir okkur. 

Að lokum...

...óska ég þér gleðilegrar hátíðar og vona að nýja árið verði þér gæfuríkt með spennandi ævintýrum á hverju götuhorni.

XXX