28. ágúst 2015

Ævintýri

"Mestu vonbrigði okkar í lífinu spretta af tækifærum sem gengu okkur úr greipum og áhættu sem við tókum ekki."

Það var akkurat þetta sem gerði útslagið með að ég ákvað að ég yrði að fara til að horfa á sundgarpinn minn keppa á ólympíuhátíð æskunnar sem haldin yrði í Georgiu.
Landinu. Ekki fylkinu.

Það var alveg fyrirsjáanlegt að þetta yrði ævintýri þar sem ég reyndi að afla mér upplýsinga um borgina Tbilisi áður en farið var af stað en það var svo sem ekki úr miklu að moða. Eitthvað um að landið hefði verið hluti af fyrrverandi rússaveldi og ætti sér mikla sögu.
En hér er ferðasagan í stuttu máli:

Eitthvað voru Georgian airlines búnir að undirbúa sig fyrir hátíðina því svona leit flugvélin út sem við flugum með frá Amsterdam. Ekki slæmt flug en kannski ekki það sem við erum vön. Eða eins og húsbóndinn orðaði það svo pent: "Hvað draga þeir upp úr töskunum næst? Hænur?


Hótelið. Já ekki svo slæmt. Blessunarlega var okkur úthlutað herbergi á 4. hæð þar sem umferðargnýrinn var mikill frá götunni, en aðeins minni á fjórðu...og þessa viku sem við vorum þarna gátum við ómögulega lokað glugganum. Nú, hvers vegna töluðuð þið ekki við starfsfólkið? Tja, þarna komumst við fyrst að því að í Georgiu talar fólk almennt ekkert annað en georgísku. Sumir tala jú rússnesku en æ...við vorum svo ryðguð í henni ...


Ólympíuhátíð æskunnar. Greinilegt var að íbúarnir höfðu gert sitt besta við undirbúning og flest mannvirkin voru splunkuný. Keppnislaugin var t.d. tekin í notkun í maí síðastliðnum. 
Setningarhátíðin var stórglæsileg. Það kitlaði aðeins Íslendingsstoltið að sjá íslenska fánann borinn inn á leikvanginn. Eina sem skyggði á setninguna var að það var ekki alveg farið eftir öryggisstöðlum þegar flugeldum voru skotið á loft. Litlu mátti muna að þeir kveiktu bara í öllu klabbinu.Það var vel búið að keppendum. Þeir voru lokuðu þorpi með gæslu og alltaf þegar þeir fóru á milli staða í rútu voru þeir í lögreglufylgd með blikkandi ljósum. Sunddrottningin mín stóð sig vel miðað við frekar töff aðstæður. En hún bætti tímann sinn í einu sundi og er reynslunni ríkari.Svo var það borgin Tbilisi. Alveg mögnuð. Ég hefði viljað hafa meiri tíma til að skoða mig betur um. Við vorum þarna í lok júlí og hitastigið var alveg hreint ærandi, milli 34- 43°c alla daga. Erfitt að vera lengi útivið í einu og frekar auðvelt að villast þar sem götumerkingar ekki sem bestar... eða skrifað á óskiljanlegu tungumáli.


Síðan var það allt hitt. Maturinn, menningin og götusalarnir. Allt svo öðruvísi og spennandi.

Tbilisi, Georgia. Bara ævintýri.
Þangað verð ég að komast aftur.


xxx