31. maí 2012

Sunna




Þessi uppskrift er úr Heklbók Þóru. Nýjasta trendið, skemmtileg, auðveld og flott uppskrift.


29. maí 2012

Hvítasunna


Sumarið er komið, og hvað er betra en íslensk sveitasæla?
Hitinn fór upp að 22°c í skugganum , bara dásamlegt. 


Eftir að við tókum inn rafmagnið í bústaðinn er hægt að leyfa sér ýmislegt sem ekki hægt var áður. Baka vöfflur er eitt af því, og auðvitað var Litlimann með vökult auga á öllum framkvæmdum.




Og svo var svo skemmtilegt að týna upp "blómin sem eru út í beði" en honum fannst furðulegt hvað þau voru fljót að "sofna aftur" þ.e. þau fölnuðu ;-)


Eftir að Litlimann var sofnaður fór ég í gönguferð um sveitina ásamt prinsessu #2 og nú er hægt að kaupa egg beint frá bóndanum. Ooh , það er svo gaman, ganga yfir móana, heyra í fuglunum og njóta langra daga. Þessi mynd er tekin kl. 21.30 !


Reyndar þarf maður heldur betur að borga fyrir dásemdirnar en hvernig er hægt að standast til dæmis þessi egg ?



 Svo flottar umbúðir og eggin langt frá því að vera slétt og felld líkt og þau sem eru frá risahænsnabúunum.


Og að sjálfsögðu var heklið ekki langt undan í hvíldinni. Hlakka til þegar þessi hekltilraun fer að verða endanleg.

20. maí 2012

Heklaðgraff

Ég var búin að heyra utan af mér að það væri í tísku að graffa hekl út um allan bæ.

Þetta graff er í garðinum við Ásmundarsafn í Reykjavík.


En graffið var ekki það sem stóð upp úr, þó að það væri sérstakt og flott , heldur Ásmundarsafnið sjálft.
Ég varð barasta alveg heilluð. Sýningin innandyra er sko vel heppnuð.  Sýningarskráin sem ég fékk við innganginn er með þeim flottari sem ég hef fengið. Ég fór heim, las hana vel yfir og langaði til að vita meira um þennan merkilega listamann. Að mínu mati eiga söfn að vera þannig, þ.e. þau veki forvitni og að mann langi til að koma aftur og sjá meira.


Litlimann átti reyndar erfitt með að halda að sér fingrum innandyra en úti í garðinum er hægt að príla og koma við listaverkin að vild. Svo vorum við með nesti og teppi með okkur og í garðinum eru fínir bekkir til að fá sér piknik. Það er eitthvað svo spennandi að hafa með sér nesti og borða úti í stórborg.

18. maí 2012

Heklað barnateppi

Ég gerði þetta teppi fyrir jól en var einhvern veginn alltaf að velta fyrir mér stærðinni. Einhvern veginn alltaf of lítið. Var að nota garnafganga í það og nú síðast var ég að setja rendur á kantinn upp á von og óvon að það myndi ná allan hringinn. Teppið mælist nú 54x85 cm og verður það ekki stærra. Mér finnst sjálfri best að nota minni teppin til að vefja um lítil kríli, og svo er miklu þægilegra þvo þau og þerra.





5. maí 2012

Fröken Rúlla

Á fimmtudagskvöld var komið að því. Fröken Rúlla skyldi koma í heiminn. Hún yrði þó ekki gerð af Meistarans höndum ...en því sem næst.

Nú var allt lagt undir. Öll þekking og kunnátta síðustu ára lögð saman. Allt sem búið var að læra um heklið síðasta árið. Útsaumssporin síðan í grunnskóla rifjuð upp. Teikningarnar á borðinu skoðaðar í þaula og efni allt saman komið.


Kvöldið fór í að skapa það sem allt byggðist á. Undir miðnætti var skaparinn orðinn býsna þreyttur en áfram skyldi haldið næsta kvöld.

Næsta kvöld var erfitt. Ekki var útlit fyrir að teikningarnar væru eins og skaparinn vildi. Ekkert passaði saman. Fröken Rúlla var bjargað frá ruslatunninni á einhvern undaverðan hátt. Kannski englar skaparans hafi tekið í taumana ?

En svo datt einhvern veginn allt saman. Aðstoðarmenn skaparans stóðu á hliðarlínunni og hvöttu hann til dáða. "Hvar er takkinn ?" sagði Litli aðstoðarmaðurinn sem varð til þess að skaparinn hélt sínu striki.
Skaparinn varð reyndar að sinna ýmsum öðrum skylduverkum inn á milli því ekki virðist heimurinn geta án hans verið.

En svo... TaDaddarRra !!!


Fröken Rúlla


Svo ósköp smá. Hefur reyndar ekki hendur eða fætur en kemst örugglega á milli staða á litlu hjólunum sínum eða fær far í litlum lófa.

Andlitið góðlegt og á sama tíma svo óspillt og hreint. Og ávallt með bros á vör.



Þrátt fyrir stirðlegt og vélmennislegt útlit hefur Frökun Rúlla hjartað á réttum stað sem stanslaus áminning um það að útlitið og geta hvers og eins skipta ekki mestu máli heldur hlýjan og hjartalag sem býr að baki.