30. nóvember 2015

Aðventa

 
Nú líður að jólum. Það hefur nú varla farið fram hjá neinum. Litlimann er farinn að hafa ákveðnar hugmyndir um hvað þarf að að gera / eiga / fá fyrir jól. Sumt er skemmtilegt að gera saman í undirbúningi jóla eins og að baka piparkökur og mála þær með sykurgumsi. Það finnst Litlamann gaman - og gera síðan upp við sig hvaða köku skal borða fyrst.

Jóladagatal er bráðnauðsynlegur óþarfi á aðventu. Í gegnum tíðina hefur borist inn á okkar heimili allskonar dagatöl. Nammidagatöl. Myndadagatöl. Dótadagatöl. Allt saman gríðarlega spennandi og nú í þetta sinn dró ég úr geymslunni handgert dagatal eftir frænku mína sem hægt er að setja í litlar gersemar. Ég veit ekki hvor er spenntari, hann að opna pokana, eða ég að handfjatla þetta feikilega fallega handverk.

 

 

 

3. nóvember 2015

Vettlingastuð

Ég varð að kaupa uppskriftina af þessum vettlingum, svona í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna. Þeir heita Gudrun mittens og byrjaði ég á þeim í ágúst. Ég ýtti þeim til hliðar þegar ég var búin með hægri vettlinginn því ég var ekki alveg sátt, án þess að vita hvað væri að honum. Ákvað að halda samt áfram með hinn í október og nú þegar þeir eru nærri tilbúnir er ég reynslunni ríkari. Garn í svona miklu útprjónuðu stykki verður að "renna" betur þ.e. það verður að vera hægt að toga þá og teyja svo þeir verði "jafnari." Get bara ekki útskýrt þetta betur. Sem sagt, hef lagt þá aftur til hliðar því ég á eftir að ganga frá endum, þvo þá og leggja til. Þá verða þeir (kannski) flottir.

Þá er best að snúa sér að einhverju nýju...

Þar til næst

X