22. apríl 2012

Skipulagt kaos.

Dágóður tími fer á þessu heimili að leita að hlutum. "mamma, hvar er þetta, hvar er hitt" er algeng spurning sem æruverðug moi á að finna sí og æ.

Sumt er hægt að hafa í röð og reglu en kryddskúffan er fljót að fara í drasl og lengi verið að finna rétta kryddið og í amstri dagsins má maður ekki neinn tíma missa - þá styttist tíminn sem maður hefur til að hekla !

Og svona leit kryddskúffan út áður en límmiðar og tiltekt hófst ...


...og svona eftir á. Ég merkti ofan á kryddið með ódýrum hvítum límmiðum, þegar kryddið er búið er svo hægt að hirða lokið og setja á nýjan stauk.Ég er ekki frá því að þetta sé betra, að minnsta kosti sagði ektamann: "vóÓó, góð hugmynd hjá þér" þegar hann leitaði að grillkryddinu.

19. apríl 2012

Gleðilegt sumar.


Eftir harðann vetur - mestmegnis þó veðurfarslega séð - er vonandi komið sumar. Dagurinn leið þó mestmegnis við að taka til í garðinum, þvo þvotta eftir ælupest og hafa ofan af fyrir Litla mann. Laumaðist stutt í heklið meðan Litli mann fékk sér kríu. Fékk svo heimsókn góðra vina. Það verður eitthvað svo mikið úr deginum þegar maður á góða stund með vinum.

17. apríl 2012

FERMING

Jæja, þá er búið að ferma frumburðinn.
Það er búið að vera mörg handtökin við undirbúninginn og ótrúlegt hvað það er búið að vera mikið um alls konar viðvik og dúllerí.

Slatti af bakstri. Hundrað + af Sörum. Ég er orðin býsna góð að græja þær, millikremið er samt það sem þarfnast mestrar alúðar.  En góðar eru þær.  Muffins er sívinsælt en sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Og skreytiþörfinni er vel hægt að fullnægja með fullt af kökuskrauti og smjörkremi.
Skreytingar. Eins og góð vinkona sagði ef það stendur "fermingar -" fyrir framan þá er búið að sprengja upp verðið á vörunni. Ég lagði mig eiginlega fram um að sneiða fram hjá slíku og finna eigin leiðir.  Ég fékk kertin ódýr í Pier búðinni og borða og bönd í skólavörudeildinni í gömlu Skólavörubúðinni, A4 held ég að það heiti í dag. Að velja sér grunnlit, fjólubláan í þessu tilfelli sameinaði þemað og gaf heildstæðan svip.
Aðfengnar veitingar.  Þó ég sé nokkuð góð í bakstri er sumt sem ég hef ekki lagt í, fyrir utan að ég er engin ofurkona sem kemst yfir allt.  Fermingartertuna pantaði ég hjá bakaranum, fór með kökudiskinn 8 dögum fyrir fermingu og bað um eitt stykki köku á diskinn. Það er alltaf gaman að hafa marsipan tertu en gott er að hafa hugfast að hafa hana ekki of stóra. Þessi terta er ætluð fyrir ca. 20 manns en af gefinni reynslu þá er þessi stærð af tertu fyrir mun fleiri.


Ekki er hægt að sleppa að minnast á hjálp mömmu við pönnukökugerð og tengdamömmu við flatkökusmurningu.
Takk æðislega !

Fermingarbarnið. Að sjálfsögðu var búið að finna rétta kjólinn og réttu skóna nokkru fyrir fermingu. Það var búið að þræða allar tuskubúðirnar í Reykjavík en svo fannst þetta í heimabyggð. Allaf gott að versla heima, það skiptir mig allaveganna miklu máli.
"Nauðsynlegt" er að fara í prufugreiðslu svo allt gangi nú eftir áætlun á stóra deginum.En þrátt fyrir hið veraldlega stúss þá er athöfnin það sem skiptir mestu máli. Athöfnin í Keflavíkurkirkju var sérstök, falleg, lífleg og umfram allt minnistæð, fyrir mig sem foreldri og að fallega stúlkan mín hafi valið að standa frammi fyrir guði og mönnum og ákveðið að tilheyra söfnuðinum sem hún var skírð til.E.s. Þessi mynd verður að fljóta með til að sýna að þrátt fyrir allt stússið og hátíðleikann var litli mann á því að það væri mikilvægt að mála pallinn á fermingardaginn. Hann er nú býsna reffilegur með silkibindi og í gúmmístígvélum upptekinn í hörkuvinnu.E.s.2. Ég vil þakka öllum sem komu til okkar á þessum degi, sendu okkur skeyti eða voru með okkur í huga þar sem um of langan veg var að fara. Takk fyrir.

8. apríl 2012

Málshátturinn

"  Lífsvefurinn er blandað garn, gott og illt blandað saman "
6. apríl 2012

Gleðilega páska


Kræklótt páskakanína í stífun ...eða kannski krossfest?  Heklið hefur nú öðlast nýjar hæðir þegar maður snýr sér að þrívíðum verkefnum.  Uppskriftina að kanínu má finna hér en að hekla þetta litla krútt leiddi mig að amigurumi. Jebbs, næsta verkefni að gerjast.


Annars verð ég nú að grobba mig aðeins, á annan dag páska næstkomandi verður komið eitt ár síðan ég sat með tölvuna í fanginu, heklunál og garn og lærði að hekla. Og trúið mér, þetta er svo gaman, sitja í holunni sinni með heklunál og fylgjast með sjónvarpinu með öðru auganu. Maður bara spyr sig, hvernig gat ég setið yfir heilli bíómynd án þess að vera að föndra eitthvað í höndunum um leið?