8. ágúst 2012

Kanntu að prjóna sokka ?


Allt sem ég les og allt sem ég sé þessa dagana eru prjónaðir sokkar.
Hellen Sigurbjörg bloggaði um 21 sokkapar. TUTTUGU OG EITT PAR ! Og það ætlað til gjafa á ókunnuga fætur langt í burtu. Ég fyllist bara lotningu, þvílík elja og óeigingjarnt starf hjá henni.

Ég hef líka verið að hlaða niður prjóna- og heklbækur á Kyndilinn minn. Keypti meðal annars tvær bækur eftir Stephanie-Pearl-McPhee. Sú kann aldeilis að skrifa fyndnar prjónasögur. Sögurnar eru úr hennar eigin lífi en hún skrifar svo frábærlega um hversdagslega hluti að maður engist um af hlátri. Hún heldur líka úti bloggi sem er líka mjög skemmtilegt að lesa og skoða. Stephanie telur að allir geti prjónað sokka.

En sem sagt...hmm...jæja. Ég lagði af stað í ævintýrið. Það var nú svo sem ekki alveg slétt...mestmegnis hálfbrugðið.

Ég keypti garn sem virtist vera gott í sokka - var búin að lesa að gott væri að þeir væru úr amk. 70% ull og restin einhverskonar gerviefni. Ef þig langar til að vita hvernig hægt er að finna út, úr hverju garn er búið til (kannski búin að týna miðanum utan af garninu) þá er Stephanie með mjög góðar lýsingar í bókinni sinni sem felst í því að kveikja í garninu !!!

Alltjént, ég þurfti ekki að kveikja í garnenda því miðinn var vel festur á. 
Ég dró upp bókina eftir Erlu, Lærðu að prjóna og átti svo ljósrit með góðri lýsingu á sokkaprjóni sem ég man alls ekki hvar ég stal úr. Ég get nú ekki sagt hvort sokkhællinn sé franskur eða eitthvað annað en fyrir einhvert kraftaverk varð til sokkur.

Það var nokkuð stolt kerling í búi þegar einn sokkur var tilbúinn.  Og þá var bara eftir að prjóna hinn. Það var ekki eins flókið í annað sinn enda hafði ég lært nokkuð af fyrri mistökum.
Og hér hafið þið það....

ykkar elskulegust getur prjónað sokka .