26. júní 2014

Sumarfrí



Ég hef ekki miklar væntingar til góðrar veðráttu á pallinum hér heima.
Ég stóðst þó ekki mátið og keypti mér stórglæsilega sumarstóla til að hafa við
gamla sófaborðið frá tengdó. Kannski verður hægt að drekka morgunkaffið í morgunsólinni einn dag án húfu og vettlinga þetta sumarið. Kannski.

Okkur tókst nú samt eitt síðdegið að skella í okkur vöfflum í skjóli hússins milli þess sem bletturinn túnið var slegið. Ég meina það er barasta aldrei þurrkur (mjög svo blautur júní) og þegar styttir upp þá er sko vissara að draga út sláttuvélina. 
  

En þetta er svo sem allt í lagi, þetta veður. Það er alveg hægt að finna sér eitthvað að gera. Litlimann er búinn að vera í sundskóla núna í júní, svona rétt til að undirbúa hann fyrir skólasundið. Hann er búinn að vera voða duglegur og svei mér ef að hann er ekki sífellt að bæta tímann við að þurrka sér/klæða sig sjálfur. Það er allaveganna á hreinu að ég fer ekki með honum þegar hann þarf að bjarga sér sjálfur í 1.bekk.

Við fórum líka saman í golf á sunnudaginn var.
Litlimann var ófeiminn við að sveifla kylfunni sem reyndar var alltof stór fyrir hann.
Þessi mynd er eitthvað svo lýsandi fyrir alltjént  þessa ferð, Litlimann að berjast við að hitta boltann og húsbóndinn út í móa að leita að boltanum sínum...eða mínum!?!


Svo er líka hægt að dunda við ýmislegt sem er óklárað og/eða hefur setið á hakanum.
Ég hef verið að dunda mér við pínulítið heklað teppi. Það átti ekki að verða neitt, það er að segja ég var að kenna einni í vinnunni að hekla og brátt voru dúllurnar orðnar nokkrar svo að ég ákvað að drífa í að hekla þær saman.


Ég hef líka verið að lesa eitthvað annað en vinnutengt. Ég var að lesa Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur. Alveg ljómandi góð bók sem er byggð á sögulegum grunni.

Mér finnst líka voða gaman að koma við í nytjamarkaðinum og þar leynist stundum gersemar. Ég meina ég fékk listaverkabókina um Luisu á 200 kr. Heppin ég. Ég sver það, bókin hefur ekki einu sinni verið opnuð. Ég hef lengi aðdáandi verka hennar og nokkrum sinnum gluggað í bókina á bókasafninu. Litirnir og myndefnið er svo frábært hjá henni. Svo er líka hægt að velta fyrir sér ferli hennar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að hún var/er svo lítið þekkt? Það má velta því fyrir sér að ástæðan hafi kannski verið af því að hún var kona?


Það er líka stutt í léttlestrarefnið. Ég fann t.d. þetta gamla Burda prjónablað á nytjamarkaðinum. Útgefið 1982. Ég á svo sem ekki eftir að gera neitt úr því frekar en úr Lopabæklingunum sem ég fékk sent frá aldraðri frænku sem var handmenntakennari. Henni var hugsað til mín því að nú er hún að losa sig við uppskriftirnar/handavinnubækurnar og var svo ánægð með prjónaða sjalið sem ég sendi henni á aðventunni. Því miður er hún að verða alveg blind og getur ekki lengur gert handavinnuna sína. Aww...
Þetta er allavega fjársjóður í mínum huga og verður geymt sem slíkt. 




12. júní 2014

Barnahúfa

Ég er þessa dagana að nota upp garn sem leynist hér um allt hús.
Þennan fjólubláa lit átti ég eina staka dokku, og eitthvað hafði nú ég verið búin
að taka af henni því að til að ég gæti klárað húfuna varð hún í það grynnsta.
En Litlimann er bara nokkuð ánægður og segist ætla að nota hana. 



Garnið er Smart, uppskriftin úr Garn og gaman en Super Maríó sveppurinn er saumaður í eftir á.

4. júní 2014

Mánuðurinn sem leið

Maí hefur gjörsamlega flogið áfram og það er kominn júní.
Ég hef ekki gefið mér tíma til að taka til í garðinum en merkilegt nokk
virðist eitthvað koma upp ár eftir ár.
Líka stjúpurnar sem eiga að vera einærar.



Ég hef nú meira verið að njóta veðursins.
Hef til dæmis farið í hjólatúra með Litlamann sem er 
nýbúinn að læra að hjóla án hjálpardekkja.



Fór í afmælisboð bæjarins en leikskólabörn allra leikskóla Reykjanesbæjar 
voru búin að búa til heljarinnar veislu. Eins og alltaf eru leikskólarnir með á
hreinu hvernig á að gera hlutina almennilega og flotta.




Síðan hefur ekki farið fram hjá manni kjarabarátta.
Æji ég veit ekki...best að pæla ekki of mikið í því.


Svo fór ég á sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur, Handverk og hönnun.
Þar freistaðist ég til að kaupa mér handspunnið, handlitað garn úr Borgarfirðinum.
Er með pínulitla hugmynd hvað ég ætla að gera við það,
sjáum til hvað verður.


Og síðan ég lauk við enn eitt sjalið.
Það er svolítið hippalegt en svei mér þá ef það á ekki 
eftir að verða uppáhaldssjalið.
Garnið er Cascade 220 og uppskriftin er úr Maríu heklbók.