27. desember 2013

Jólin













Eftir að ég kom heim frá USA hefur allt verið á OFUR hraða. Ég komst hreinlega ekki yfir allt og hugga mig við að það sé ekki geranlegt að GERA ALLT. 
Það gáfust þó nokkrar ljúfar stundir 
en þess óska ég þér:

Gleðilega hátíð og megir þú eiga margar ljúfar stundir á komandi ári.


20. desember 2013

New York

Í byrjun mánaðarins fórum við hjónakornin til NY. Húsbóndinn á slatta af ættingjum búsettum víð og dreif um USA svo að tilgangur ferðarinnar var hálft í hvoru að sýna okkur og sjá þau. Gestrisnin var alveg hreint ótrúleg en við gistum í "TheWestWing" og vorum spillt með dásamlegum mat og aldrei neitt junkfæði á boðstólnum. Neihei, bara allt það besta sem fylkið hefur upp á að bjóða, fisk, kjöt, ávexti, ber og heimabakaðar kökur. Dásamlegt bara.
Ég meina, hér er morgunverðarborðið.


Ég var svo ótrúlega heppin að Joann sem við gistum hjá var búin að fá leyfi fyrir mig að koma með henni í heimsókn í grunnskólana sem hún er stundakennari við. Ég fékk að vera viðstödd kennslustundir og lærði ég svo ótrúlega margt af henni, bæði í skólaheimsókninni og svo fékk ég einkakennslu í notkun ipad og tölvunotkun með nemendum/kennurum. Ég get ekki sýnt ykkur myndir sem ég tók í skólanum vegna persónuverndar en læt eina fylgja sem mér finnst svo lýsandi fyrir að í meginatriðum eru skólar að klást við sömu verkefnin.


Við fórum á ströndina á Long Island, ekki mikið um að vera þar í desember en greinilega ekki erfitt að komast í kyrrð og ró ef áhugi er fyrir hendi.


Við fórum og skoðuðum ys og þys við Times Square...


... og minningarreit um tvíburaturnana. Það var magnað. 
Ef það á að skoða eitthvað áhrifaríkt þá er þetta á topp 10 listanum.


Auðvitað var farið í búðir og þá var 15 mín. reglan höfð í hávegum: Á innan við 15 mínútum skal vera búið að kaupa eitthvað!
En besta búðin sem ég fór í var Purl Soho.
Ég meina það var svo troðið af viðskiptavinum þar að það var beinlínis kjánalegt. En úrvalið af garni maður minn! Blessunarlega var ég búin að setja mér mörk um hvað ég mætti eyða miklu. Þessi búð er bara algjörlega nauðsynlegt fyrir þessa handóðu að heimsækja ;)


Þessi borgarferð var alveg hreint frábær og vonandi verður ekki langt að bíða til næstu utanlandsferðar. 

 Note to add:  Thanks to Charlie+Joann for your hospitality and all your help.
Hopefully we will back soon and you know that you are always welcome to Iceland.

16. desember 2013

Annasamir dagar

Hér á bæ hefur verið svo mikið að gera að það er engu lagi líkt.
Litlimann átti 5 ára afmæli í nóvember. 
Allar helstu ofurhetjur hans komu úr pökkunum sem vöktu mikla ánægju.


Litla hafmeyjan stóð í ströngu við að setja Íslandsmet í meyjaflokki í sundi. 
Okkur telst til að metin hafi verið samtals níu sem hún setti á fimm vikna tímabili. 


Í byrjun desember fórum við á jóla balletsýningu hjá heimasætunni #1. 
Ég meina hvað er hægt að segja annað en að ég er að rifna af stolti.


Handavinnan hefur verið þarna einhvers staðar á hliðarlínunni. 
Þessi engill varð til eitt kvöldið, svo agnarsmár, varla meira en 5 cm á hæð.


Læt þetta duga í bili en vonandi get ég deilt með ykkur fleiri myndum næstu daga því af nógu er að taka.

10. nóvember 2013

Heklaðir sokkar

Uppskriftin er í Maríu heklbók en garnið er Drops Fabel Superwash. Ein dokka dugar í hvorn sokk.





4. nóvember 2013

Sunnudagsrúntur

Í gær var góður dagur fyrir sunnudagsrúnt, heiðskýrt og lítill vindur. Við fórum samt ekki langt, rétt aðeins út á Reykjanes og fórum í raun hringinn í kringum flugvöllinn.


Við ákváðum að taka göngutúr en það var tilvalið að nota bílastæði sem greinilegt var að Kaninn hafði verið að nýta sér. Við fundum að minnsta kosti mikil ummerki um veru þeirra þar og í raun út um allt þar sem við gengum.


Það er gaman að velta fyrir sér tilganginum af veru þeirra þarna niður í fjöru en þarna er fullkomið bátalægi.


Litlimann fann auðvitað margar gersemar en hann er orðinn nokkuð raunsær á hvað er sniðugt að geyma og hvað ekki. Það fékk eitt að koma með heim úr þessari ferð.


 Viltu sjá?


Það þarf ekki að fara langt eða vera lengi í burtu til að eiga góða stund saman en það var nokkuð sáttur hópur sem brunaði heim í hlýjuna og heitt kaffi ásamt bónussnúð þetta sunnudagssíðdegi.



27. október 2013

Trefill

Ég lenti í smá krísu með þennan trefil. Hann er svo ægifagur í blaðinu en þegar ég spurði fólkið í kringum mig um litavalið voru svörin í líkingu við þetta: 


"mamma, það er ekki svona í tísku...ég meina, svo er ég unglingur og myndi aldrei vera með svona"


Já , ég verð að horfast í augu við það. Ég er ekki unglingur og nokk sama hvað öðrum finnst klæðilegt - innan skynsamlegra marka ;)


Ég meina, hvað er ekki hægt að líka við þetta? Haustlitir, hlýtt, öðruvísi, skemmtilegt og náttúra. Allt í sama treflinum.

Þessum er allaveganna slétt sama...

22. október 2013

Vetrarfríið í hnotskurn

Smá...



...sveitasæla þegar við náðum að gista eina nótt í bústaðnum, anda að okkur sveitaloftinu og svamla í heita pottinum.

Smá...

...keypt af garni. Ég veit að það var ekki þörf en sko þegar maður á leið framhjá búðinni í sveitinni og maður freistast til að "skjótast aðeins inn" þá labbar maður ekki svo auðveldlega út aftur með tvær hendur tómar (tja, nema þá helst peningalega séð !)

Smá...

...góður maður. Hellingur af góðum mat, fáranlega mikið af góðum mat. RoSaLeGa góður matur. Var ég búin að nefna það að það var gúffað í sig eins og það væru jólin af góðum mat. Tilefnið var reyndar að tengdapabbi átti afmæli um helgina og fórum við á Hótel Sögu til að gera okkur dagamun. Ég mæli hiklaust með hlaðborðinu þar en bara vera viss um að einhver gaur á símanum sem tekur niður borðapantanir hafi alveg á hreinu hvenær veitingastaðurinn opnar. 

Og smá...


...jóla jóla. Ekki svo að skilja að ég sé byrjuð að undirbúa jólin. Neihei. Langt í frá. Ég hef heldur engan áhuga að vera þessi skipulagða sem er búin að redda jólagjöfunum í ágúst og skreyta húsið hátt og lágt fyrsta í aðventu. En ég skrapp aðeins á bókasafnið til að finna eitthvað að lesa og sá þá að starfsfólkið var búið að taka fram jólatímaritin. Æi, það er svo mikil rómantík og yndislegheit að láta sig dreyma.

17. október 2013

Vetrarfrí

Kannski...
...verður tími til að drekka kaffið sitt í næði

Kannski...
...verður tími til að leika sér

Kannski...
...verður tími til að lesa

Kannski...
...verður tími til að hekla

Kannski...
...umm, já kannski...

11. október 2013

Bleikt
Nú í október er árverknisátak gagnvart krabbameinsleit hjá konum. 
Allir vinnustaðir með á nótunum, allir mæta í einhverju bleiku.
Hér er mín útfærsla.

"twoboobieswitharibbon"

16. september 2013

Ný heklbók

Nú er komin ný íslensk heklbók, María heklbók, og ég get ekki séð að hún gefi fyrri bókinni neitt eftir. Ég er ekki viss um að ég geri allt úr bókinni en sumt er bara skyldueign heklara, og það er þessi bók sannarlega.

Í bókinni er uppskrift af kraga eða hálsmeni sem kallast Viktoría. Nokkuð skemmtilegt að búa til en mín Viktoría líkist nú meira drottningunni af Saba.

14. september 2013

...og enn fleiri húfur

Það virðist eins og allir í kringum mig séu að búa sig undir harðan vetur  - Lóa mín, þú fært tækifæri til að nota nýju úlpuna þína ;)  Haustið ætlar að vera stutt þetta árið, ég hugleiddi einn morguninn í vikunni hvar rúðuskafan fyrir bílinn væri því að það virtist vera hrím á bílrúðunum.
Ég er nú frekar róleg yfir þessu, planið að vera bara inni og prjóna/hekla ef að veðrið verður slæmt.
Það verður að minnsta kosti engum kalt á skallanum sem ég þekki því að ég var að ljúka við enn eina húfuna úr Húfubókinni góðu...


Svo verð ég að deila með ykkur nýjasta æðinu á þessu heimili, Hjálparsveins-vettlingar. Tengdó prjónar vettlinginn en ég hekla augun og sauma munn. Ekki annað hægt en að brosa að þessum.