26. mars 2012

Heklað utan um krukkur


Ég hef ekki tölur um hvað ég er búin að hekla utan um margar krukkur en eitt er víst að engin glerkrukka fer í ruslið á þessu heimili.
Það er stundum erfitt að átta sig á garnmagninu sem fer í hverja krukku.  Ég tel þó að varlega áætlað fari um 35 metrar utan um litla krukku.

25. mars 2012

Fjöruferð

Vorhugur í fólki sem veldur því að maður skellir sér í fjöruferð. Vorið var nú samt ekki meira en svo að á 15 mínútum vorum við orðin holdvot inn að beini og litlir fingur ísskaldir. Fundum fjóra litla kuðunga og bíldekk. Við drifum okkur beint heim og hituðum heitt súkkulaði og mauluðum kleinur með.





En þörf fyrir útiveru var ekki fullnægt hjá litla manni svo að hjólið var dregið fram úr skúrnum en um leið dró ský frá sólu.  Bongóblíða á pallinum.  Dæmigert.


15. mars 2012

Hendur til góðra verka

Ég fann þessa konu sem fagnar öllu handgerðu  og ljósmyndar það svo fallega.
Ég efast stórlega um að við gefum gaum að öllu því sem við gerum daglega með höndum og hversu mikil gæfa það er að fá að skapa eitthvað nýtt.

Og þjálfunin sem þarf er mikil til að ná góðri færni. 

En ánægjan yfir vel unnu verki er dásamleg.



Eitt af því sem mér finnst gaman að gera er að baka úr geri , það er eitthvað svo gaman að handfjatla deigið, finna hvernig það breytist í höndunum á mér og möguleikarnir endalausir.

Ég rakst á þessa uppskrift í tímaritinu House to home að þessu fína rúsínubrauði. Ég verð að viðurkenna að mér fannst það hefast lítið áður en það fór inn í ofninn en það stóð "...until it´s doubled in size".  Ég var farin að rifja upp fyrri glötuð afrek í bakstri þegar brauðið verður eins og trjádrumbur og þurrari en allt þurrt.
Þegar brauðið kom út ofninum var það aftur á móti svo flott og gott og ekki var verra að það var drjúgt, það dugði í 2 daga á heimilinu.
Kanil - rúsínu brauð

500 g hveiti + hveiti til að hnoða með
100 g sykur
1 tsk salt
2 msk kanill
1 bréf þurrger
150 g rúsínur eða þurrkuð trönuber (cranberries)
300 ml volg mjólk
30 g brætt smjör

Hnoðað létt saman í hrærivélinni með hnoðaranum en hnoðað í 10 mínútur á borðinu, bætt við svolitlu hveiti reglulega. Mældi ekki hveitimagnið en ímynda mér að það hafi verið um 100 g.
Hnoðað í 3 lengjur sem eru fléttaðar saman og endarnir brotnir undir.  Sett á bökunarpappír og plastfilma sem hefur verið smurð með olíu sett yfir meðan deigið hefar sig. Ég lét það hefast í góðan klukkutíma.  Mundu eftir að taka plastfilmuna af áður en þú setur brauðið inn í 200 °c heitan ofninn.  Bakað í 20 mínútur, hitinn lækkaður í 180°c og bakað áfram í 25 mínútur.  Setti 3 msk sykur út í 2 msk soðið vatn sem smurt er fyrir brauðið um leið og það kemur úr ofninum, það gefur brauðinu fallegan gljáa .

Og að lokum, árshátíð í skólanum á morgun og allir að koma með veitingar á hlaðborðið.  Ég bakaði þessar, vonandi renna þær ljúflega niður.





8. mars 2012

Fyrsta heklaða sjalið mitt.

Allaf verið að vafra í bloggheimum, mestmegnis að skoða hekl og búin að finna nokkrar góðar blogg-skvísur sem veita innblástur. Ég hef áður minnst á þessa flottu hannyrðakonu og hún vísaði mér veginn á uppskriftina að þessu sjali.


 Ég er nú barasta stolt af sjalinu og ekki minna stolt af modelinu, sem er snilldarstelpa sem stendur sig svo fínt í sundinu. Hrós til þín, elsku hnátan mín.








4. mars 2012

Sums it up!


Þessi sýnir hvernig veðrið er búið að vera síðan í NOVEMBER !
Myndin af rjúpunni var tekin í gær, hún sat bara þarna á grindverkinu inni í miðri Keflavík og ropaði þvílíkt ásamt þremur öðrum fuglum. Ég fór reyndar í gönguferð í gær og í dag (og það snjóaði) en það mátti heyra fuglasöng , vorið er á næsta leiti í bænum.