25. janúar 2016

Janúarprjónið.

Leyniprjón í vettlingagrúbbunni á Ravelry. Slatti af endum - ekki þó fuglunum ;) - sem þarf að ganga frá en 6 litir í gangi. Ef þú hefur áhuga þá finnur þú uppskriftina undir "An enchanting mystery" eftir Wenche Roald.
Meira seinna
XXX

 

23. janúar 2016

Allir lesa

Gleðilegt nýtt ár. Nýtt ár með nýjar vonir og væntingar. Ég er ekkert fyrir það að strengja nýársheit og þó...

Það er margt sem mig langar til að bæta, breyta og laga í eigin ranni. Til dæmis lestur. Það verður alveg að segjast eins og er að spjaldtölvan og léttlestur á bloggsíðum hefur tekið yfirhöndina. En nú ætla ég að bæta úr. Þá er best að fara í gegnum það sem liggur á náttborðinu.

Efst í bunkanum er skáldsaga sem ég fékk í jólagjöf. Hef verið að glugga aðeins í hana, hún er nokkuð góð og verð ég að drífa mig í að klára hana. Undir henni er heklblað sem ég er áskrifandi að. Alltaf gott að fletta smá í því, svo eru greinarnar svo góðar ;)

Næst er það matreiðslubók ásamt ferðalýsingum um Frakkland. Ég hef aldrei farið þangað en mig langar MJÖG mikið til þess. Læt mig dreyma á meðan. Litla kindle spjaldið er þarna líka með nokkrum bókum í. Nokkrar þeirra eru bækur sem uppáhaldsbloggarar hafa samið eða mælt með.
Rauða serían. Hmmm...? Hvaðan er þetta eiginlega komið? Getur verið að þetta sé enn lesið á dögum kvennréttinda?
Þarna birtist falleg jólamynd eftir Litlamann. Elsku karlinn sem á svo erfitt með að læra að lesa, en það er önnur saga.
Bækur á ensku. Ég kaupi oft bækur á ferðalögum erlendis. Þessar báðar eru mjög góðar.

Að lokum er það bók frá þarsíðustu jólum. Mig langar til að klára hana en því miður grípur hún mig ekki nógu vel. Æji, það er stundum bara svo gott að ráða úr einni Sudoku þegar maður er úrvinda eftir langan dag.

Mig langar til að hvetja þig til að taka upp bók að lesa. Deildu gleðinni af góðri bók með einhverjum öðrum, ekki síst yngstu kynslóðinni sem þarf svo mikið á því að halda.

Þar til næst.

XXX