12. febrúar 2015

Vika tvö í febrúarJahérna, hér. Veðrið er bara ekkert að lagast. Það snjóar og hvassviðri dag eftir dag. Suma daga sést varla milli húsa vegna snjóbylja. Síðan verður allt bjart á milli og sólskin bara. Guði sé lof. Ég er oggupínulítið að bíða eftir vorinu en þá er best að umpotta þessum fáum plöntum sem ég á og vona að vorið og sumarið verði gott.
Saumavélin var tekin upp af illri nauðsyn þar sem ég varð að bjarga danspíunni með breytingar á balletbúningum. Og þar sem saumavélin var komin upp á borð fór ég í smá saumaskap. Ekkert merkilegt svo sem. Ég varð að skoða á netinu hvernið átti að koma bendlaböndum á smekkinn. Ég hef áður saumað svona smekki en var alveg fyrirmunað að rifja upp hvernig ég átti að gera. Smekkurinn varð ekki sem verstur en tókst auðvitað að snúa stykkinu öfugu, veit það bara næst. Hjartað var aftur á móti bara tilraunastarfsemi með efni sem var til í skúffum. Bara krúttlegt ekki satt?
Þar til næst
x

5. febrúar 2015

Fyrsta vikan í febrúar

Veðrið hefur verið heldur betur umhleypingasamt síðustu vikuna. Snjókoma, rigning, rok og sólskin sitt á hvað. Sem betur fer er daginn farið að lengja og það er búið að vera yndislegt veður yfir hábjartan daginn. 
Ég prjónaði annað sett af vettlingum sem var í samprjóni í september síðastliðnum. Ég er miklu ánægðari með þessa vettlinga en núna vissi ég hvernig lokaútkoman yrði. Svo prjónaði ég þá með aðeins meiri festu svo að þeir urðu þéttari og fallegri. Garnið er Baby garn frá RAUMA og breytti ég aðeins stroffinu með því að hafa það einlitt. Uppskriftina má nálgast á Ravelry og heitir Soria Moria Vott.
Sundgarpurinn kom, sá og sigraði í Luxemburg. Varð í 3. 8. og 9. sæti á súper sterku Evrópu móti. Hún var nokkuð sátt við að taka við verðlaunum á sjálfan afmælisdaginn. En það er erfitt að taka þátt í svona móti og þegar hún kom heim skreið hún upp í rúm og svaf í 15 tíma.
Þar til næst

x