29. febrúar 2012


Ég segi það satt, ég hélt í alvöru að það væri að koma vor en nei...


...en það er svo sem allt í lagi. Ég hef verið að undirbúa fermingu fröken #1. Þetta verður allt saman mjög settlegt og heimilislegt en það þarf að huga að smáatriðunum, servéttur, dúkar, hanskar, kerti og svo framvegis.

Mig langaði að hekla blóm utan um ljósaseríu og skreyta veisluborðið. En mér hefur gengið illa að fá uppskriftirnar sem ég hef fundið á netinu til að passa utan um seríuna. Svo ég reyndi að bulla upp úr mér sjálfri og svei mér þá, að þau séu bestu hingað til.

19. febrúar 2012

Bolludagur

Umm, bolla, bolla.
Búðarbollur, bakaríisbollur bæði gott en heimatilbúnar bestar. Uppskriftir af vatnsdeigsbollum er hægt að sækja í netheimum og í flestum kökuuppskriftabókum. Mín uppskrift þetta árið er úr Smáréttir Nönnu. Fyllingar eru að hvers manns smekk en hér er hægt að fá ódýrar hugmyndir með því sem til er á flestum heimilum. Súkkúlaðisósa ofan á er barasta tilbúin íssósa.

13. febrúar 2012

Heklaðir smekkir



Fyrir 10 mánuðum lærði ég að hekla með hjálp youtube. Sat með tölvuna í fanginu, heklnálina og garnið og æfði mig aftur og aftur að gera litlar dúllur. Smám saman er ég orðin klókari að lesa úr uppskriftum og stílfæra. Uppskriftina af þesssum smekkjum má finna í Þóru heklbók.  Þar eru mörg verkefni sem þurfa að bíða betri tíma.

12. febrúar 2012

Bananabrauð og Döðlubrauð

Ertu komin á fætur kl.8.00 á sunnudagsmorgni? Langar þig til að baka eitthvað einfalt með kafffinu ?
Þá er uppskriftin hér:

Bananabrauð
3 stórir bananar
1 bolli sykur
2 bollar hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
1 egg

Byrjaðu á að stappa banana og blandaðu svo öllu öðru hráefni vel saman við þá með sleif. Því næst hellirðu deiginu í vel smurt, aflangt kökumót. Bakar brauðið við 180°c í 50 mín. eða þar til prjónn sem þú stingur í brauðið kemur hreinn út.


Döðlubrauð

1 1/2 bolli sjóðandi vatn
1 bolli döðlur
1 msk brætt smjör/smjörlíki
1 1/2 bolli sykur
2 1/2 bolli hveiti
1/4 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt
1 egg

Döðlur brytjaðar og látnar standa í vatninu þar til þær eru linar, smjör sett saman við (sem bráðnar
í vatninu). Settu þurrefnin saman við, hrærðu með sleif, vanilludropar og eggið líka - passaðu bara að deigið sé ekki of heitt þegar eggið fer í þá getur deigið skilið sig.  Hef lent í því þegar ég ætlaði að hræra allt saman á ljóshraða :)
Fínt að hita sér kaffi eða te meðan maður bíður eftir að heita vatnið kólnar með döðlunum.
Bakað í ca. 60 mín. við 180°c eða þar til prjónn sem þú stingur í brauðið kemur hreinn út.

Bæði brauðin eru fín með smjöri og jafnvel ostsneið. Verði þér að góðu.

3. febrúar 2012

Rigningarsuddi


Eftir mikinn snjó er komin rigningartíð.  Allur snjór horfinn en sem betur fer farið að lengja daginn svo að myrkrið er ekki eins yfirþyrmandi.
Ég er mest í litlu verkefnunum núna, það er svo gott að fá að sjá afrakstur verka sinna strax. Það eru litlu stundirnar sem telja, það er að segja þegar ég sit yfir sundæfingum litla manns þá er hægt að tengja nokkrar lykkjur eða yfir sjónvarpinu á kvöldin þegar ró færist yfir.
Dúllurnar eru úr þessari bók hérna , frábærar skýringar og myndir. Ég gaf mér svolítinn tíma til að læra á táknin, það margborgar sig.
Íslandsstjakinn er snilldarhönnun, fallegt og óvenjulegt.
Músin er líka handunnin eftir fjarskyldan frænda norðan af landi.