19. febrúar 2016

Allir lesa meira

Ert þú stundum í vandræðum með að finna þér eitthvað gott að lesa?
Hér eru nokkrar hugmyndir sem gætu hvatt þig áfram:


Svo er hægt að fara á næsta bókasafn. Á bókasafninu mínu sem er staðsett í húsnæði sem var áður banki (sem fór á hausinn) er óskaplega hjálpfúst fólk sem getur oft hjálpað manni að finna góða bók.
Læt hér fylgja með mynd af Litlamann sem tekin er fyrir utan gömlu peningageymsluna sem núna er notuð sem bókageymsla fyrir bækur á erlendum tungumálum.

Bækur eru fjársjóður

Þar til næst
XXX

25. janúar 2016

Janúarprjónið.

Leyniprjón í vettlingagrúbbunni á Ravelry. Slatti af endum - ekki þó fuglunum ;) - sem þarf að ganga frá en 6 litir í gangi. Ef þú hefur áhuga þá finnur þú uppskriftina undir "An enchanting mystery" eftir Wenche Roald.
Meira seinna
XXX

 

23. janúar 2016

Allir lesa

Gleðilegt nýtt ár. Nýtt ár með nýjar vonir og væntingar. Ég er ekkert fyrir það að strengja nýársheit og þó...

Það er margt sem mig langar til að bæta, breyta og laga í eigin ranni. Til dæmis lestur. Það verður alveg að segjast eins og er að spjaldtölvan og léttlestur á bloggsíðum hefur tekið yfirhöndina. En nú ætla ég að bæta úr. Þá er best að fara í gegnum það sem liggur á náttborðinu.

Efst í bunkanum er skáldsaga sem ég fékk í jólagjöf. Hef verið að glugga aðeins í hana, hún er nokkuð góð og verð ég að drífa mig í að klára hana. Undir henni er heklblað sem ég er áskrifandi að. Alltaf gott að fletta smá í því, svo eru greinarnar svo góðar ;)

Næst er það matreiðslubók ásamt ferðalýsingum um Frakkland. Ég hef aldrei farið þangað en mig langar MJÖG mikið til þess. Læt mig dreyma á meðan. Litla kindle spjaldið er þarna líka með nokkrum bókum í. Nokkrar þeirra eru bækur sem uppáhaldsbloggarar hafa samið eða mælt með.
Rauða serían. Hmmm...? Hvaðan er þetta eiginlega komið? Getur verið að þetta sé enn lesið á dögum kvennréttinda?
Þarna birtist falleg jólamynd eftir Litlamann. Elsku karlinn sem á svo erfitt með að læra að lesa, en það er önnur saga.
Bækur á ensku. Ég kaupi oft bækur á ferðalögum erlendis. Þessar báðar eru mjög góðar.

Að lokum er það bók frá þarsíðustu jólum. Mig langar til að klára hana en því miður grípur hún mig ekki nógu vel. Æji, það er stundum bara svo gott að ráða úr einni Sudoku þegar maður er úrvinda eftir langan dag.

Mig langar til að hvetja þig til að taka upp bók að lesa. Deildu gleðinni af góðri bók með einhverjum öðrum, ekki síst yngstu kynslóðinni sem þarf svo mikið á því að halda.

Þar til næst.

XXX

 

28. desember 2015

Vettlingar


 

Í nóvember tók ég þátt í samprjóni í vettlingagrúbbu á Raverly. Byrjaði á að prjóna með Smart garni og var komin langleiðina með þá en þá litu þeir meira út eins og lúffur og hefðu passað á skessu. Byrjaði aftur með Baby garni og prjóna nr. 2 1/2. Þá gekk betur og þeir smellpassa á kvenmannshendur. Sendi vettlingana ásamt íslensku konfekti til ættingja í New York. Held það hafi verið nokkuð góð jólagjöf.

Vettlingauppskriftina má nálgast á Ravelry og heita þeir Southernmost mittens eftir Ericu Mount.

 

 

 

19. desember 2015

Búin að öllu...

" Ertu búin að öllu fyrir jólin? " er spurning sem hljómar gjarnan rétt fyrir hátíðir. Svo var sagt við mig" Heyrðu, mér finnst þú vera svona týpan sem prjónar á alla, bakar nokkrar sortir og sýður þitt eigið rauðkál ..."

 

Ha?!? Umm, nei ég er EKKI hún. Vildi svo sannarlega það væri raunin en það eru ófá skiptin á aðventu sem ég hef verið á barmi taugaáfalls. Það er nú bara þannig að mig langar til að hafa kósí og nice og vera ekki að taka þátt í hlaupinu en það tekur stundum bara heilmikið á að vera á bremsunni, ef þið vitið hvað ég á við.

 

Og grínlaust, það er nú bara fullt jobb að passa upp á að standa sína plikt sem foreldri. Jólasýning. Jólamót. Jólabingó. Jólaball. Jólanesti. Þetta er endalaust.

En svo gefst tími inn á milli til þess sem mig langar til að sé gert, mín prívat Litlu-jól. Í dag náðist slík stund. Ég útbjó litla skreytingu á leiði pabba og við brunuðum í garðinn til að koma henni fyrir. Yndislegt veður og góð stund sem skiptir svo miklu máli fyrir sálartetrið.

Eigið góðan dag, gott fólk.

XXX

 

13. desember 2015

Við sækjum jólatréð

Hér á þessum bæ er engin hefð með jólatréð. Stundum notum við plast tréð sem okkur var gefið um árið notað. Það er svo raunverulegt að það fellir plast -barrið og þarf að ryksuga allt þegar það hefur verið skreytt og sömuleiðis þegar það er tekið niður í janúar. Stundum höfum við keypt jólatré af góðgerðarsamtökum en 2012 fórum við og sóttum tré í Vindáshlíð. Það var svo gaman og þetta árið langaði okkur til að endurtaka leikinn. Daginn sem auglýst var opið í Hlíðinni gerði brjál-veður svo ekkert varð úr en þar sem kona þekkir konu var leyfi fengið til að fara á eigin vegum, bara leggja inn á reikning Vindáshlíðar fyrir trénu.

Lögðum af stað í myrkri og mætt við sólarupprás. Ahhh, Hlíðin mín fríða.

Brunakuldi, -7c logn og snjór.

Hittum vinafólk og samnýttum bílkerruna fyrir trén.

Vorum með nesti og heitt í brúsa. Umm, yndislegt. Held að allir hafi verið nokkuð sáttir en þreyttir, Litlimann lagði sig meira að segja í bílnum á heimleið.

Nú bíður jólatréð úti á palli og við inni í hlýjunni að hlaða batteríin fyrir næsta verkefni.

Þar til næst,

XXX

 

30. nóvember 2015

Aðventa

 
Nú líður að jólum. Það hefur nú varla farið fram hjá neinum. Litlimann er farinn að hafa ákveðnar hugmyndir um hvað þarf að að gera / eiga / fá fyrir jól. Sumt er skemmtilegt að gera saman í undirbúningi jóla eins og að baka piparkökur og mála þær með sykurgumsi. Það finnst Litlamann gaman - og gera síðan upp við sig hvaða köku skal borða fyrst.

Jóladagatal er bráðnauðsynlegur óþarfi á aðventu. Í gegnum tíðina hefur borist inn á okkar heimili allskonar dagatöl. Nammidagatöl. Myndadagatöl. Dótadagatöl. Allt saman gríðarlega spennandi og nú í þetta sinn dró ég úr geymslunni handgert dagatal eftir frænku mína sem hægt er að setja í litlar gersemar. Ég veit ekki hvor er spenntari, hann að opna pokana, eða ég að handfjatla þetta feikilega fallega handverk.