Sýnir færslur með efnisorðinu hversdags. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hversdags. Sýna allar færslur

25. mars 2016

Föstudagurinn langi

Þegar ég var barn var föstudagurinn langi mjög langur. Einhvern veginn komst maður þó í gegnum hann, í minningunni aðallega með því að hafa ofan af fyrir sér sjálfur með kubba- eða barbieleik.

Á unglingsárum lokaði maður sig inni í herbergi og hlustaði á tónlist af kassettum eða grúfði sig ofan í bók. Seinna meir fór maður í ferðalög með kristilegu starfi en svo á eigin vegum til dæmis í bústað og þeyttist um allar trissur.

Í dag kann ég að meta friðinn sem fylgir dymbilviku. Það er þó ekki svo að hér sé látlaus friður, nei, nei, ég heyri óm frá bíómyndum og tölvuleikjum en svo inn á milli fellur allt í dúnalogn og allir að slaka á hver á sinn máta.

Friðarkveðja

XXX

 

14. desember 2014

Á aðventu

Ég er búin að vera að stússast sitt lítið af hverju síðustu daga. Eitt kvöldið, svona þegar ég var að bursta tennurnar fyrir svefninn, fékk ég hugmynd. Ég varð að búa til "mandölu" eins og Lucy í Attic24 var að gera í sumar. En hvað hef ég við enn einn pottaleppinn að gera? Júbb, hann skyldi vera botninn á innkaupatuðru. Sem sagt, verkefni sem er í poka í töskunni sem fer með um allt. Ágætt t.d. þegar ég bíð eftir Litlamann á sundæfingu og á kaffistofunni í vinnunni.

Nema hvað. Þá vantar mig meira garn og þá dró ég fram fínu, flottu garnvinduna mína sem Húsbóndinn gaf mér óvænt í síðasta mánuði. Besta gjöf sem ég hef fengið lengi.
Nú svo eru það smáfuglarnir. Mér finnst svo yndislegt að fylgjast með þeim út um eldhúsgluggann þegar ég er að vinna eldhússtörfin. Ég hef keypt poka með fuglafóðri en bætt svo við niðurskornum brauðendum, eplum eða mylsnunni úr botninum á cornfleksinu. Svo er voða vinsælt hjá fuglunum að bæta við svolítilli fitu til dæmis þeirri sem kemur þegar maður steikir kjöt. Fuglarnir sem koma við hjá mér eru starrar, þrestir og snjótittlingar.
Hér á þessu heimili er ekki hefð fyrir því að standa á haus í bakstri á aðventu. Ég hef þó alltaf bakað einu sinni á aðventu piparkökur, svona meira fyrir börnin gert. Og þetta hefur alltaf verið skemmtilegt. Þetta árið var það bara Litlimann sem hafði áhuga á að taka þátt en skemmtilegast fannst honum uppvaskið.
Og þennan þriðja sunnudag í aðventu sitjum við Litlimann saman með barnaefnið í sjónvarpinu í bakgrunni meðan aðrir fjölskyldumeðlimir kúra undir sæng.
Hann að kljást við púsluspil frá jólasveininum og ég að hekla snjókorn. Yndislegt.
 

 

 

 

 

 

15. október 2014

Hversdags...

Heimanám hjá Litla mann og sunddrottningunni unnið við eldhúsborðið. Ég aftur á móti bæti við pilsið góða nýrri heklaðri dúllu. Pilsið er notað 1x á ári sem auðvitað er bölvuð vitleysa. Þörf á að minna á mikilvægi skimunar og eftirfylni gagnvart krabbameini alla daga ársins.