16. júlí 2015

Sólroði






Var að ljúka við sjal. 
Ég tók þátt í "samprjóni" á Ravelry en uppskriftin var til sölu í maí, með fyrirmælum um hvaða garn og prjónastærð gætu hentað. Fyrstu vísbendingu fékk ég síðan 1. júní og komu þær svo vikulega í samtals 6 vikur. Uppskriftin er á ensku og gekk mér vel að skilja hana. Vinkona mín Fröken Googl var mér síðan innan handar þegar á reyndi ;)

Garnið keypti í New York í maí síðastliðnum í lítilli prjónabúð sem heitir The Village knitter. Afgreiðslukonan var alveg hreint yndisleg og þegar ég lenti í vanda með að velja garnið fórum við bara saman á Ravelry og fundum út úr hvaða garn hentaði best í þetta verkefni. 
Garnið er MadelineTosh merino Light og liturinn á því er ótrúlega líkur næturhimninum sem hefur verið svo fallegur núna í júní.
Mæli með garninu og búðinni ef þú átt leið um New York. 

Höfundurinn af sjalinu er ekki kominn með nafn á það ennþá en ef þú vilt nálgast uppskrift getur þú fundið hana á Ravelry undir t.d. Kirsten Kaper design.

Þar til næst
x



2. júlí 2015

Sólbrekkuskógur








"Niðurhalið" kláraðist bara alveg í júní. En nú er ég komin í sumarfrí og þá verður hlaðið aftur.

Þar til næst
x


14. júní 2015

Sumarbyrjun

Dagarnir líða hratt þegar maður hefur nóg að gera og hér hefur ekki verið neinn skortur á verkefnum.
Í maí brugðum við okkur til New York og gistum hjá afkomendum frænku sem flutti af skerinu kringum 1950. Það er svo gaman að geta, með aðstoð internetsins að styrkja ættarböndin.
Að sjálfsögðu var farið í helstu fatabúðirnar en svo var slappað af í bakgarðinum og borðaður góður matur, sem nóg er af í henni Ameríku.


Almenn heimilisstörf taka líka sinn tíma.
Í maí var tekið tekið til í eldhússkápum og þá birtust smekkir sem mér voru gefnir þegar börnin voru lítil. Ég varð auðvitað að prófa að gera mína eigin og
hér er mín útfærsla af smekkjunum.


Ég er alltaf með mörg handavinnuverkefni í gangi - sumir segja allt of mikið - en það er svo þægilegt að hafa ólík verkefni eftir því hvernig skapi ég er í. Stundum langar mann bara til að gera hugsunarlaust slétt prjón sem þægilegt er að hafa í töskunni þegar manni leiðist. Ég er sko nefnilega ekki með smartsíma í töskunni sem glepur.

Þessi skokkur er búinn að vera að þvælast með mér í töskunni síðastliðna tvo mánuði.
Uppskriftina má nálgast á Ravelry.com ókeypis undir nafninu Little sister´s dress.


Þar til næst

x

1. maí 2015

Vettlingar

Vandinn við vettlinga er að þegar maður er búinn þá er maður samt bara hálfnaður...því maður þarf væntanlega að gera annan á hina hendina.

Uppskriftina "Mittens for Mimi" er hægt að fá frítt á Ravelry.com

Þar til næst

X

 

26. apríl 2015

Svoosh...

...apríl að verða búinn. Hér er búið að vera rosa mikið að gera, sundrottningin var fermd og veisla haldin. Allir voru glaðir og sáttir með daginn ekki síst fermingarbarnið en það var nú fyrir öllu.

Við fórum í fermingarveislur hjá öðrum en svo voru líka afmæli, dansýning hjá frumburðinum og sundmót í þessum mánuði. Plön fyrir sumarið eru einnig langt komin svo það verður ekki longmolla hér á næstunni.

Prjón og hekl er alltaf á hliðarlínunni en það er ekkert sem ég næ að klára. Náði nú samt að búa til nokkur tækifæriskort sem kemur alltaf að góðum notum.

Þar til næst

X

 

29. mars 2015

Vor í lofti













Mars 2015. Allt ætlar um koll að keyra vegna sólmyrkva. Enginn ætlar að missa af þessu náttúruundri, sem flest okkar náum kannski að sjá einu sinni á mannsævinni. Já, flott en svo bara búið. Flestir hoppa upp í bílana sína, setjast við tölvuskjáinn og missa síðan af daglegum undrum náttúrunnar sem eru alls ekki síðri en myrkur í algeimi.
Veðrið heldur áfram að vera "allskonar" sem hefur gefið tækifæri til snjóhúsagerðar en síðan voru hjólin tekin fram tveim dögum seinna eftir vetrardvöl í bílskúrnum.
Við Litlimann skelltum okkur líka í Húsdýragarðinn til að fylgjast með rúningu kindanna.
Bara yndislegt.
x



7. mars 2015

Bless febrúar, halló mars







Febrúar búinn. Nóg að gera á þessum bæ. 

Litlimann óskaði eftir að vera drekatemjari á öskudaginn og það var stílfært eftir bestu getu. Hann bjó til sjálfur hálsfestina en ég fór í sölubúð Rauðakrossins og fékk þar gerviskinn fyrir 400 kall og saumaði vesti og legghlífar handa litla víkingnum mínum. Það var nokkuð sáttur drengur sem trallaði sér í skólann þann daginn. 

Litlimann hefur verið upptekinn af Loom böndum síðustu vikurnar, teygjurnar sem fást í öllum regnbogans litum og festar saman með nokkurs konar hekli. Hann þarf nú samt svolitla hjálp við þetta því þetta reynir verulega á fínhreyfingar.

Á konudaginn fékk ég þessa fínu blómvendi frá húsbóndanum. Það er lítið við það að bæta annað en: Blóm gleðja.

Fjáröflun fyrir sunddrottninguna er í fullum gangi og það verður nú að að segjast að fjáröflunarnefndin vinnur duglega að því að hafa verkefnin fjölbreytt. Fyrir utan þetta helsta að selja plastpoka eða flatkökur koma upp smáverkefni eins og að útbúa veisluhlaðborð fyrir hina ýmsu fundi. Nú var komið að mér að útbúa brauðrétt en það er eitthvað sem ég er arfaslök í. Tókst þó að útbúa laxa- og skinku tortillakökur með rjómaosti og káli. Umm, einfalt og þrusugott.

Ég hef gripið í handavinnuna þegar færi gefst en tekst einhvern veginn samt ekki að klára neitt. Fékk skyndilega þá flugu í höfuðið að prjóna á mig peysu. Þyrfti svo mikið á henni að halda í nýju vinnunni minni. Jebbs, byrjuð að vinna aftur fyrir utan heimilið. Kannski ekki skrýtið að verkefnin sitja á hakanum...
þar til næst
x