7. mars 2015

Bless febrúar, halló mars







Febrúar búinn. Nóg að gera á þessum bæ. 

Litlimann óskaði eftir að vera drekatemjari á öskudaginn og það var stílfært eftir bestu getu. Hann bjó til sjálfur hálsfestina en ég fór í sölubúð Rauðakrossins og fékk þar gerviskinn fyrir 400 kall og saumaði vesti og legghlífar handa litla víkingnum mínum. Það var nokkuð sáttur drengur sem trallaði sér í skólann þann daginn. 

Litlimann hefur verið upptekinn af Loom böndum síðustu vikurnar, teygjurnar sem fást í öllum regnbogans litum og festar saman með nokkurs konar hekli. Hann þarf nú samt svolitla hjálp við þetta því þetta reynir verulega á fínhreyfingar.

Á konudaginn fékk ég þessa fínu blómvendi frá húsbóndanum. Það er lítið við það að bæta annað en: Blóm gleðja.

Fjáröflun fyrir sunddrottninguna er í fullum gangi og það verður nú að að segjast að fjáröflunarnefndin vinnur duglega að því að hafa verkefnin fjölbreytt. Fyrir utan þetta helsta að selja plastpoka eða flatkökur koma upp smáverkefni eins og að útbúa veisluhlaðborð fyrir hina ýmsu fundi. Nú var komið að mér að útbúa brauðrétt en það er eitthvað sem ég er arfaslök í. Tókst þó að útbúa laxa- og skinku tortillakökur með rjómaosti og káli. Umm, einfalt og þrusugott.

Ég hef gripið í handavinnuna þegar færi gefst en tekst einhvern veginn samt ekki að klára neitt. Fékk skyndilega þá flugu í höfuðið að prjóna á mig peysu. Þyrfti svo mikið á henni að halda í nýju vinnunni minni. Jebbs, byrjuð að vinna aftur fyrir utan heimilið. Kannski ekki skrýtið að verkefnin sitja á hakanum...
þar til næst
x


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.