12. júlí 2012

Tvöföld sæla



Þrátt fyrir að veðrið sé búið að vera alveg einstaklega gott er alltaf gott að eiga létta húfu á kvöldin. Þessi húfa er fyrst prjónuð og svo hekluð - tvöföld sæla. Uppskriftina má finna hér . Fljótgert og gott að lauma þessari handavinnu með í picknik-ferðirnar.

Grenivík

6. júlí 2012

Hermilist

Þegar hefðbundin rútína er farin út um gluggann í sumarfríi fer maður að sjá, heyra og skynja á annan hátt. Nú gefst tími til að skoða sig um og fara á staði sem maður hefur alltaf viljað að sjá.
Einnig er tími til að hlusta á útvarpið sem ekki gefst tækifæri á í vinnunni. Mikið af útvarpsefni er bara dægrastytting og skilur ekkert eftir sig. En inn á milli er eitthvað sem snertir.
Ég var að hlusta á viðtal við íslenskan söngvara og hann var að spjalla um meðal annars listina.


Hann sagði að þegar hann var að byrja sönglistina hafi hann verið mikið í hermilist. Að flytja og syngja lög sem aðrir hafa gert og stílfæra þau að sínum eigin. Margir tónlistarmenn hafi haft áhrif á hann og gert hann að þeim listamanni sem hann er í dag.



Við sækjum hugmyndir í eitthvað sem höfðar til okkar. Handavinna þar með talin.
Staðir á veraldarvefnum eins og Pinterest.com beinlínis ala á þessari hugmynd.

Umræða hefur skapast síðustu daga um tilverurétt og uppruna Lopapeysunnar.   Rætt hefur verið um réttmæti þess að famleiða Lopapeysuna undir þeim merkjum að hún sé íslensk , en samt prjónuð fyrir utan landsteinana, væntanlega þá af fólki sem aldrei hefur haft íslenska grund undir fótum sér.


Ég ætla svo sannarlega ekki að taka afstöðu hvort Lopapeysan geti verið íslensk þegar hún hefur verið hönnuð á Íslandi og Lopinn sé íslenskur.
En maður spyr sig hvort deilan snúist ekki frekar um peninga heldur hvert framleiðslulandið er.

Og þá komum við aftur að hermilistinni. Glöggt auga (eða eyra) getur séð hver uppruni vörunnar er.
Ef ekki, þá held ég að það skipti ekki svo miklu máli bara ef maður nýtur þess sem maður hefur í höndunum.


P.s. Þessi dásamlegi dúkur er gjöf frá Ingu frænku sem er á 87 aldursári. Dúkinn gerði hún fyrir mörgum árum en vildi endilega gefa mér hann í afmælisgjöf. Inga frænka var handavinnukennari og hefur alla tíð verið að gera fallega hluti. Eitt sinn spurði mamma hana hvort hún hefði aldrei verið að hanna eitthvað sjálf. Nei, var svarið, " hún væri bara handverkskona ."  Það má vel vera að svo sé en stór hluti af hönnun og fallegu verki er litaval...og Inga frænka kann það frábærlega.

20. júní 2012

Sumarsólstöður


Nú er ég búin að vera í sumarfríi í rúma viku. Engin vekjaraklukka, Litli mann sér alveg um það að það sé ræs. Ég skrapp með hann í Grindavík til að kaupa ís ...en að sjálfsögðu var megin tilgangurinn að líta inn í litla garnverslun þar. Kom heim með gult bómullargarn og tvær dokkur af mislitu garni.

Þegar heim var komið, var auðvitað beint farið í að hekla smekk. Ég segi nú ekki farir mínar alveg sléttar með það, því að uppskriftin er langt frá því að vera skýr. Ég hefði nú alveg getað sagt mér það sjálf því að ég hef gert þrjár aðrar uppskriftir úr þessu blaði, eitt skiptið hætti ég við og rakti upp allt það sem ég búin að gera og hinar tvær varð ég barasta að giska á hvernig ætti að gera uppskriftinar.

En smekkurinn er tilbúinn, langt í frá að vera eins og sá í blaðinu en hann er fínn í slef og matarslettur.

Sumarið er alveg búið að vera dásamlegt veðurfarslega séð. Varla komið dropi úr lofti svo að það hefur þurft að vökva garðinn daglega en allt útlit er fyrir að það verði svolítið af rifsberjum og stikilsberjum í ár.



Sumarið er tíminn



Þessi mynd er tekin fyrir 6 mánuðum, brrr.
Í vetur var setið við og perlað út í eitt. Nú er tíminn til að hengja fíneríð upp og njóta þess þegar það sveiflast í kvöldsólinni.







17. júní 2012

Gleðilegan þjóðhátíðardag




15. júní 2012

Ugla


Lengi hefur það verið á stefnuskránni að gefa í tækifærisgjafir eitthvað handunnið.

Í þetta sinn varð þessi litla ugla til í hádeginu í dag.


Uppskriftina má finna á hollenskri bloggsíðu .
Notabene, uppskrifin er á ensku ef skrollað er neðst niður.

 Hér er uglan mín að bera sig saman við þá hollensku.

 


Svo kveður hún heimahagana og gleður vonandi 13 ára afmælissnót seinna í dag.

31. maí 2012

Sunna




Þessi uppskrift er úr Heklbók Þóru. Nýjasta trendið, skemmtileg, auðveld og flott uppskrift.


29. maí 2012

Hvítasunna


Sumarið er komið, og hvað er betra en íslensk sveitasæla?
Hitinn fór upp að 22°c í skugganum , bara dásamlegt. 


Eftir að við tókum inn rafmagnið í bústaðinn er hægt að leyfa sér ýmislegt sem ekki hægt var áður. Baka vöfflur er eitt af því, og auðvitað var Litlimann með vökult auga á öllum framkvæmdum.




Og svo var svo skemmtilegt að týna upp "blómin sem eru út í beði" en honum fannst furðulegt hvað þau voru fljót að "sofna aftur" þ.e. þau fölnuðu ;-)


Eftir að Litlimann var sofnaður fór ég í gönguferð um sveitina ásamt prinsessu #2 og nú er hægt að kaupa egg beint frá bóndanum. Ooh , það er svo gaman, ganga yfir móana, heyra í fuglunum og njóta langra daga. Þessi mynd er tekin kl. 21.30 !


Reyndar þarf maður heldur betur að borga fyrir dásemdirnar en hvernig er hægt að standast til dæmis þessi egg ?



 Svo flottar umbúðir og eggin langt frá því að vera slétt og felld líkt og þau sem eru frá risahænsnabúunum.


Og að sjálfsögðu var heklið ekki langt undan í hvíldinni. Hlakka til þegar þessi hekltilraun fer að verða endanleg.