6. júlí 2012

Hermilist

Þegar hefðbundin rútína er farin út um gluggann í sumarfríi fer maður að sjá, heyra og skynja á annan hátt. Nú gefst tími til að skoða sig um og fara á staði sem maður hefur alltaf viljað að sjá.
Einnig er tími til að hlusta á útvarpið sem ekki gefst tækifæri á í vinnunni. Mikið af útvarpsefni er bara dægrastytting og skilur ekkert eftir sig. En inn á milli er eitthvað sem snertir.
Ég var að hlusta á viðtal við íslenskan söngvara og hann var að spjalla um meðal annars listina.


Hann sagði að þegar hann var að byrja sönglistina hafi hann verið mikið í hermilist. Að flytja og syngja lög sem aðrir hafa gert og stílfæra þau að sínum eigin. Margir tónlistarmenn hafi haft áhrif á hann og gert hann að þeim listamanni sem hann er í dag.



Við sækjum hugmyndir í eitthvað sem höfðar til okkar. Handavinna þar með talin.
Staðir á veraldarvefnum eins og Pinterest.com beinlínis ala á þessari hugmynd.

Umræða hefur skapast síðustu daga um tilverurétt og uppruna Lopapeysunnar.   Rætt hefur verið um réttmæti þess að famleiða Lopapeysuna undir þeim merkjum að hún sé íslensk , en samt prjónuð fyrir utan landsteinana, væntanlega þá af fólki sem aldrei hefur haft íslenska grund undir fótum sér.


Ég ætla svo sannarlega ekki að taka afstöðu hvort Lopapeysan geti verið íslensk þegar hún hefur verið hönnuð á Íslandi og Lopinn sé íslenskur.
En maður spyr sig hvort deilan snúist ekki frekar um peninga heldur hvert framleiðslulandið er.

Og þá komum við aftur að hermilistinni. Glöggt auga (eða eyra) getur séð hver uppruni vörunnar er.
Ef ekki, þá held ég að það skipti ekki svo miklu máli bara ef maður nýtur þess sem maður hefur í höndunum.


P.s. Þessi dásamlegi dúkur er gjöf frá Ingu frænku sem er á 87 aldursári. Dúkinn gerði hún fyrir mörgum árum en vildi endilega gefa mér hann í afmælisgjöf. Inga frænka var handavinnukennari og hefur alla tíð verið að gera fallega hluti. Eitt sinn spurði mamma hana hvort hún hefði aldrei verið að hanna eitthvað sjálf. Nei, var svarið, " hún væri bara handverkskona ."  Það má vel vera að svo sé en stór hluti af hönnun og fallegu verki er litaval...og Inga frænka kann það frábærlega.

1 ummæli:

Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.