29. janúar 2015

Læsi

Ég veit að það er flókið ferli að læra að lesa en sem betur fer gengur það snuðrulaust hjá langflestum og margir sem ég hef talað við muna lítið eftir lestrarnáminu og það hafi bara gerst - allt í einu bara orðin læs. Litlimann er mjög áhugasamur og duglegur að æfa sig. Hann er kominn vel af stað í lestrartækninni og æfir sig daglega að lesa, meira að segja farinn að reyna við texta í sjónvarpinu. 
Síðustu vikur hefur hann viljað vera að skrifa sögur og teikna myndir með. 


Daglega sitjum við eldhúsborðið og prófum eitthvað nýtt. Núna finnst honum skemmtilegt að skoða barnablaðið í Fréttablaðinu en hvað ætli hafi orðið af gömlu góðu Æskublöðunum? Ég man eftir að hafa lesið þau alveg upp til agna þegar maður komst yfir eintak.


Á meðan Litlimann æfir sig er ég að stússast eitthvað í eldhúsinu. Því er ekki að neita að nú hef ég aðeins meiri tíma til að prófa nýjar uppskriftir og ég hef til dæmis ekki keypt neinn skyndimat í janúar. Svo var ég að spreyta mig i kökubakstri, svona sparitertur. Það styttist í fermingu hjá sunddrottningunni og kannski gæti ég bara búið til fermingartertuna sjálf?



Í janúar hef ég verið dugleg við að prjóna. Mig hefur lengi langað að læra betur að lesa úr prjónauppskriftum á ensku. Þegar ég hekla er ekkert mál að lesa uppskriftir og ég er miklu fljótari að fylgja þeim á ensku heldur en íslensku. 

Þessar tvær gerði ég eftir uppskrift úr ensku NORO prjónablaði sem hafði laumast með mér heim úr bókabúðinni fyrir rúmum tveimur árum. Garnið er Cascade Casablanca. Ullar/silki/mohair blanda - algjört æði. 

 

Nú svo fyrst ég var byrjuð á húfum þá dreif ég mig í eitt nýburasett. Uppskriftin er úr 20 ára gömlu íslensku blaði og garnið er Sisu. Varð smá stressuð yfir rauða garninu yfir því að það myndi lita frá sér því þegar ég var að handfjatla það fannst mér eins og það smitaði aðeins frá sér. Þegar ég þvoði það í þvottavélinni á 30° hafði ég það í sitt hvorri þvottaskjóðunni en sem betur fer varð enginn skaði skeður.


Nú er bara að fitja upp á einhverju nýju á meðan ég bíð spennt eftir fréttum frá Luxemburg þar sem sunddrottningin ætlar að keppa um helgina.





22. janúar 2015

Lögst í dvala eða...

...nei ekki alveg. Hér á hafa orðið svolitlar breytingar á heimilishaldinu.
Ég er hætt kennslu í bili og er nú heimavinnandi húsmóðir í fullu starfi.

Ástæður þessara breytinga eru ýmsar og gæti ég auðveldlega skrifað langan lista en þetta hefur verið að íþyngja mér í langan tíma.

Í fyrsta lagi er það Litlimann. Hann hefur ekki átt sérstaklega góða skólabyrjun. Hann kom illa út úr fyrstu skimunarprófum í lestri í skólanum. Félagslega hefur líka gengið upp og ofan hjá honum. Hann þarf bara eitthvað meira en það sem ég gat veitt honum í lok erfiðs vinnudags hjá okkur öllum. Og það er alveg á tæru að ef að við foreldrarnir hjálpum honum ekki hver gerir það þá?


Í öðru lagi var hjartað mitt hætt að slá með því sem ég var að gera í vinnunni þ.e.a.s ég mætti alltaf til vinnu en farin að finna fyrir alvarlegri kulnun í starfi. Eftir miklar vangaveltur og hafa rætt við fólkið sem stendur mér næst þá var niðurstaðan að hætta alveg. Það var hræðilega erfið ákvörðun. Ég sakna samstarfsfólks en ekki síður nemandanna sem voru orðnir eins og mín eigin börn. Þetta var fimmti veturinn minn í skólanum og svo ótalmargt sem ég hef lært af þeim og vonandi hef ég eitthvað kennt þeim.



Í þriðja lagi var kominn tími til að huga að líkamlegri heilsu minni. Ekkert alvarlegt, nota bene, en þetta litla hér og þar sem verður að gæta að. Blóðþrýstingurinn hefur verið á uppleið, þol og úthald ekkert og "stoðkerfisvandi" farinn að gera vart við sig eins og verkir í mjöðmum sem auðvitað koma af því að ég er orðin allt of þung. Líkaminn sem sagt farinn að segja NEI, og ég verð að gera eitthvað í málunum.



Viðbrögð fólks við því að vera hætt í vinnunni hafa verið mismunandi. Greinilegt er að það er mikilvægt að hafa vinnu, ekki síst varðandi tekjur, en því miður lítur stundum út eins og það sem ég hef nefnt hér að ofan séu bara ekki nógu góðar ástæður til að hætta í vinnu. Athyglisverðustu kommentin eru þó "það er munaður að annar aðilinn sé bara fyrirvinna." Ég skil það vel og það verður auðvitað þrengra í búi næstu vikur en það er mikilvægt að forgangsraða rétt. Ekki bara tala um það og læka á vefmiðlum þegar greinar birtast um mikilvægi þess að hlú að því sem manni er kærast.



27. desember 2014

Gleðilega hátíð

Þó að engin sjáist sjáist sól
samt ei biturt gráttu.
Nú skal halda heilög jól,
hugga slíkt þig láttu.
- Jól í koti, jól í borg,
jól um húmið svarta,
jól í gleði, jól í sorg
jól í hverju hjarta.
B. Þ. Gröndal

 

14. desember 2014

Á aðventu

Ég er búin að vera að stússast sitt lítið af hverju síðustu daga. Eitt kvöldið, svona þegar ég var að bursta tennurnar fyrir svefninn, fékk ég hugmynd. Ég varð að búa til "mandölu" eins og Lucy í Attic24 var að gera í sumar. En hvað hef ég við enn einn pottaleppinn að gera? Júbb, hann skyldi vera botninn á innkaupatuðru. Sem sagt, verkefni sem er í poka í töskunni sem fer með um allt. Ágætt t.d. þegar ég bíð eftir Litlamann á sundæfingu og á kaffistofunni í vinnunni.

Nema hvað. Þá vantar mig meira garn og þá dró ég fram fínu, flottu garnvinduna mína sem Húsbóndinn gaf mér óvænt í síðasta mánuði. Besta gjöf sem ég hef fengið lengi.
Nú svo eru það smáfuglarnir. Mér finnst svo yndislegt að fylgjast með þeim út um eldhúsgluggann þegar ég er að vinna eldhússtörfin. Ég hef keypt poka með fuglafóðri en bætt svo við niðurskornum brauðendum, eplum eða mylsnunni úr botninum á cornfleksinu. Svo er voða vinsælt hjá fuglunum að bæta við svolítilli fitu til dæmis þeirri sem kemur þegar maður steikir kjöt. Fuglarnir sem koma við hjá mér eru starrar, þrestir og snjótittlingar.
Hér á þessu heimili er ekki hefð fyrir því að standa á haus í bakstri á aðventu. Ég hef þó alltaf bakað einu sinni á aðventu piparkökur, svona meira fyrir börnin gert. Og þetta hefur alltaf verið skemmtilegt. Þetta árið var það bara Litlimann sem hafði áhuga á að taka þátt en skemmtilegast fannst honum uppvaskið.
Og þennan þriðja sunnudag í aðventu sitjum við Litlimann saman með barnaefnið í sjónvarpinu í bakgrunni meðan aðrir fjölskyldumeðlimir kúra undir sæng.
Hann að kljást við púsluspil frá jólasveininum og ég að hekla snjókorn. Yndislegt.
 

 

 

 

 

 

4. desember 2014

Endurvinnsla

Eftir vinnu á föstudögum kem ég stundum við í nytjamarkaðinum. Litlimann fær hundraðkall og má velja sér eitthvað í krakkahorninu á meðan ég vafra um og skoða draslið dótið sem fólk telur sig ekki þurfa lengur. Fyrir síðustu helgi var opnaður sérstakur jólanytjamarkaður og þar voru þessar fallegu bláu jólakúlur. Ég tók þær upp og þá kom í ljós þessi undarlega bílaframleiðenda merking. Úr búðinni fór ég tómhent en um helgina læddist að mér hugmynd...

 

...og eftir vinnu á mánudag nældi ég mér í einn kassa, takk fyrir pent. Og hafðist handa...

 

 

Uppskriftina má finna í Maríu heklbók en ég þurfti aðeins að breyta henni því að ég náði ekki að þekja kúluna með góðu móti. Húsbóndanum fannst þetta pínulítil geggjun en bað mig um að halda einni kúlunni naktri því hann var alveg meira en til að skreyta með merki volkswagen.

 

 

 

 

3. nóvember 2014

Svart og hvítt

Hefur þú einhvern tímann prjónað úr svörtu garni? Jæks, það er eins og að vinna með kolsvarta nóttina. Og svo að taka mynd af því, varla hægt nema fyrir pro.

Annars eru þetta legghlífar á ballerínuna og frumburðinn. Hún var að drepast úr kulda í einhverjum sal sem hún æfir í einu sinni í viku og vantaði eitthvað til að halda á sér hita.

Hérna er hún fyrir miðri mynd:

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvaðan hún hefur þennan tígulleik...

ég meina, hér sjáið þið þokkann hjá undirritaðri ...

 

 

19. október 2014

Vetrarfrí

 

 

Jey smá vetrarfrí. Við brugðum okkur upp í bústað eina nótt. Hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur en nóg að gera heima. Það var líka svolítil gosmengun svo að það var ekki gáfulegt að vera mikið úti.

Það er samt alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera, sívinsælt að moka holu eða fylla í holu :)

 

En það þarf alltaf að vera viss um að Litlimann hafi nóg fyrir stafni. Keypti lítinn vefstól handa honum og hann var virkilega áhugasamur og vildi endilega hafa hann með sér heim.

Best samt leiðbeiningarnar á kassanum; og regla nr.1 gríðarlega mikilvæg ;)