29. janúar 2015

Læsi

Ég veit að það er flókið ferli að læra að lesa en sem betur fer gengur það snuðrulaust hjá langflestum og margir sem ég hef talað við muna lítið eftir lestrarnáminu og það hafi bara gerst - allt í einu bara orðin læs. Litlimann er mjög áhugasamur og duglegur að æfa sig. Hann er kominn vel af stað í lestrartækninni og æfir sig daglega að lesa, meira að segja farinn að reyna við texta í sjónvarpinu. 
Síðustu vikur hefur hann viljað vera að skrifa sögur og teikna myndir með. 


Daglega sitjum við eldhúsborðið og prófum eitthvað nýtt. Núna finnst honum skemmtilegt að skoða barnablaðið í Fréttablaðinu en hvað ætli hafi orðið af gömlu góðu Æskublöðunum? Ég man eftir að hafa lesið þau alveg upp til agna þegar maður komst yfir eintak.


Á meðan Litlimann æfir sig er ég að stússast eitthvað í eldhúsinu. Því er ekki að neita að nú hef ég aðeins meiri tíma til að prófa nýjar uppskriftir og ég hef til dæmis ekki keypt neinn skyndimat í janúar. Svo var ég að spreyta mig i kökubakstri, svona sparitertur. Það styttist í fermingu hjá sunddrottningunni og kannski gæti ég bara búið til fermingartertuna sjálf?



Í janúar hef ég verið dugleg við að prjóna. Mig hefur lengi langað að læra betur að lesa úr prjónauppskriftum á ensku. Þegar ég hekla er ekkert mál að lesa uppskriftir og ég er miklu fljótari að fylgja þeim á ensku heldur en íslensku. 

Þessar tvær gerði ég eftir uppskrift úr ensku NORO prjónablaði sem hafði laumast með mér heim úr bókabúðinni fyrir rúmum tveimur árum. Garnið er Cascade Casablanca. Ullar/silki/mohair blanda - algjört æði. 

 

Nú svo fyrst ég var byrjuð á húfum þá dreif ég mig í eitt nýburasett. Uppskriftin er úr 20 ára gömlu íslensku blaði og garnið er Sisu. Varð smá stressuð yfir rauða garninu yfir því að það myndi lita frá sér því þegar ég var að handfjatla það fannst mér eins og það smitaði aðeins frá sér. Þegar ég þvoði það í þvottavélinni á 30° hafði ég það í sitt hvorri þvottaskjóðunni en sem betur fer varð enginn skaði skeður.


Nú er bara að fitja upp á einhverju nýju á meðan ég bíð spennt eftir fréttum frá Luxemburg þar sem sunddrottningin ætlar að keppa um helgina.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.