3. nóvember 2014

Svart og hvítt

Hefur þú einhvern tímann prjónað úr svörtu garni? Jæks, það er eins og að vinna með kolsvarta nóttina. Og svo að taka mynd af því, varla hægt nema fyrir pro.

Annars eru þetta legghlífar á ballerínuna og frumburðinn. Hún var að drepast úr kulda í einhverjum sal sem hún æfir í einu sinni í viku og vantaði eitthvað til að halda á sér hita.

Hérna er hún fyrir miðri mynd:

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvaðan hún hefur þennan tígulleik...

ég meina, hér sjáið þið þokkann hjá undirritaðri ...

 

 

19. október 2014

Vetrarfrí

 

 

Jey smá vetrarfrí. Við brugðum okkur upp í bústað eina nótt. Hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur en nóg að gera heima. Það var líka svolítil gosmengun svo að það var ekki gáfulegt að vera mikið úti.

Það er samt alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera, sívinsælt að moka holu eða fylla í holu :)

 

En það þarf alltaf að vera viss um að Litlimann hafi nóg fyrir stafni. Keypti lítinn vefstól handa honum og hann var virkilega áhugasamur og vildi endilega hafa hann með sér heim.

Best samt leiðbeiningarnar á kassanum; og regla nr.1 gríðarlega mikilvæg ;)

 

15. október 2014

Hversdags...

Heimanám hjá Litla mann og sunddrottningunni unnið við eldhúsborðið. Ég aftur á móti bæti við pilsið góða nýrri heklaðri dúllu. Pilsið er notað 1x á ári sem auðvitað er bölvuð vitleysa. Þörf á að minna á mikilvægi skimunar og eftirfylni gagnvart krabbameini alla daga ársins.

 

7. október 2014

Vettlingar

Ég er hér enn, gasalega mikið að gera svona eins og oft vill verða. En langaði að birta mynd af vettlingunum úr leyni-samprjóninu. Ég náði ekki að halda í við hina prjónarana, á Raverly var búið að birta yfir 200 myndir af svona vettlingapörum 1. október. Mínir vettlingar eru helst til of stórir á mig en það má örugglega finna hendur sem geta notað þá.

 

7. september 2014

Leyni-samprjón

Er í fyrsta skipti að taka þátt í leyni-samprjóni í gegnum Ravelry. Skemmtilegir, spennandi og krefjandi vettlingar. Næ vonandi að halda í við hina prjónarana, en, hey, allt bara til gamans gert.

 

16. ágúst 2014

Kvakamóle


Eitthvað verður nú að fara að skoða matarræðið á þessum bæ og gæta betur að heilsunni. Sjáum nú til hvernig það mun ganga ;)




9. ágúst 2014

Ívaf






"Orðið er mjög íslenskt og vísar í aldagamla þekkingu sem var mikilvæg fyrir afkomu okkar, vefnaðinn eða þann þráð, ívafsþráðinn, sem myndar bindingu við uppistöðuþræðina í vefstólnum þannig að úr verður voð, sem er einn mikilvægasti þátturinn í tilveru manneskjunnar, það að eiga voð í fatnað. Orðið hefur ljóðræna íhlutun og það bindur saman orð, stemmningu eða merkingu og myndar heildræna sýn, eins og t.d…. með léttu ívafi, ….blandað ívafi, ….. matur með indversku ívafi, …… með Harry Potter ívafi o.s.frv. Það lætur lítið yfir sér en myndar stóra samstæða heild í íslensku máli …… með ívafi …. þá þarf ekki að segja meir, það skilst við hvað er átt. Þó segir það kannski ekki alla söguna, það vinnur á, eins og framgangur vefnaðarins, orðið hvetur þannig til skapandi hugsunar, maður þarf að ímynda sér, vefa sinn eigin vef, til að átta sig á niðurstöðunni og þannig er líka orðið, ívaf, ófyrirsjáanlegt."



Það er sérkennilegt hvað það er stundum erfitt að koma frá sér því sem maður vill segja. 
Það reynist enn erfiðara fyrir mig að skrifa hugsanir niður. 
Hvað þá að birta það hér í litla horninu á alheimsvefnum. 



Því er ekki er hægt að neita að sumarið á þessum bæ hefur verið nokkuð strembið. Það er margt sem hefur áhrif. Börnin eru að vaxa úr grasi og taumurinn verður sífellt lengri. 

Prinsessan á bænum fer á næstu dögum til höfuðborgarinnar til að byrja nám í framhaldsskóla og í frekara dansnám. Hún fékk "fullorðinsvinnu" í sumar sem þýðir að hún þarf að standa sína plikt. Það er sko ekkert elsku mamma þar. Hún hefur líka verið að læra á bíl og hún finnur þar, held ég, aukið frelsi. Þá er bara að vona að hún kunni að höndla það og að það sem hún hefur lært í heimahúsum muni fylgja henni í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Miðjubarnið, sunddrottningin, er lika að fullorðnast. Er að komast á fermingaraldurinn. Það er nú ekkert smávegis. Það sem af er þessu ári er hún meira að segja búin að fara út fyrir landsteinana þrisvar sinnum án okkar. Tvær keppnisferðir og ein æfingaferð með sunddeildinni. Eitt landsliðsverkefni í sundi, hvorki meira né minna. Mitt hlutverk er sem áður að fylla á ísskápinn og þvo þvotta. Ég get sko alveg fullvissað ykkur um að hér er þvottavélin mikið notuð þegar æfingarnar hjá henni eru í kringum 12 á viku. Slatti af handkæðum það.



Litlimann er líka að hefja nýjan leikhluta. Hann hætti í leikskólanum í júní og ætlar að byrja í 1. bekk eftir nokkra daga. Elsku litli drengurinn minn orðinn svo stór. Hann er voða spenntur fyrir þessu öllu saman en á sama tíma skilur hann (skiljanlega) ekki þetta alveg. Að fara einn í skólann. Passa upp á dótið sitt sjálfur. Eignast nýja vini með gleði og sorgum sem fylgir vináttu.

Hvar stend ég svo? Nú er nýtt skólaár að hefjast í kennslu. Hvaða breytingar verða? Af gefinni reynslu er hvert skólaár sérstakt. Nýjir nemendur, nýjir samstarfsmenn og nýtt umhverfi sem er sífellt að breytast. Það sem þótti ágætt í gær er ekki endilega það besta á morgun.


Þannig er nú það. Breytingar. 

Ívaf...

...orðið hvetur þannig til skapandi hugsunar, maður þarf að ímynda sér, vefa sinn eigin vef, til að átta sig á niðurstöðunni og þannig er líka orðið, ívaf, ófyrirsjáanlegt."

                                                                      Fegursta orðið