23. júní 2013


Hvatning og hrós skipta svo miklu máli. Sumir hafa kallað það H-vitamín, Hrós vítamínið. 
Síðustu daga hef ég fengið H-vítamín í stórum skömmtum.

#1
Tilnefning til Hvatningarverðlauna Reykjanesbæjar "fyrir störf eða verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni." Mætti prúðbúin til að taka á móti viðurkenningarskjali, auðmjúk og glöð.
Eftir formlega athöfn spjallaði ég stuttlega við góðan kennara og þegar ég minntist á að mér fyndist ég ekkert vera að gera eitthvað meira en aðrir, ég væri bara að sinna starfi mínu þá sagði hún "já, EN þú gerir það með ástúð og hlýju með hag nemanda fyrir brjósti." Þar með bráðnaði mitt hjarta.
Takk.

#2
Á einum degi fékk ég tvisvar sinnum hrós fyrir þessa litlu bloggsíðu mína. 
"það er svo gaman að heyra eitthvað jákvætt og fallegt" og
"handavinnan þín er svo falleg."
Takk.

#3
Ég hef verið að setja myndir af handavinnunni minni inn á Ravelry. Og viti menn, heklhönnuður vildi nota mynd af handavinnunni minni á bloggsíðu sinni sem dæmi um útfærslu á hennar verkum. Ef það er ekki búst fyrir áhugamanneskjuna um handavinnu þá veit ég ekki hvað gerir það.
Takk.

Rabbabara-Uppskera Ársins 2013  á  S34   :)

19. júní 2013

Skin og skúrir

Loksins, loksins, loksins komin í sumarfrí. LOKSINS.
Eftir viðburðaríkan og strembinn vetur er ég kominn í sumarfrí...


...eða sko frá launuðu vinnunni. Það er síður en svo lognmolla á þessum bæ.

Eins og ég hef áður minnst á þá erum við stoltir hluthafar í sumarbústað. Og honum þarf að sinna. Það er alltaf eitthvað, nú var drifið í að ganga frá framkvæmdum síðasta sumars þ.e. að tengja nýja rotþró. Auðvitað er Litlimann ekki langt undan að taka út verkið.


Svo þarf að tyrfa yfir allt saman. 160 fermetrar. Fjögur bretti af torfi. 30 hjólbörur af möl og mold flutt til.
En margar hendur vinna létt verk.


Af sjálfsögðu var verkið tekið út af Litlamann...mér sýnist það vera þumlar upp!


Í bústaðnum er líka einhvern veginn alltaf tími fyrir þetta "allt annað"




En það skiptist á skin og skúrum. Í þessum mánuði kvöddum við góðan mann sem háði baráttu við krabbamein. Nágranni, fjölskyldufaðir, dugnaðarforkur, ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd og síðast ekki síst með rólyndisgeð sem öllum leið vel nálægt. Hans verður sárt saknað.


En svo skín sólin aftur. Sama dag og jarðarförin var fengum við skilaboð um að í heiminn væri komin litil stúlka. Svo agnarsmá. Fædd fyrir tímann. Ég orðinn frænka á nýjan leik. Bara yndislegt.


Við höldum ótrauð áfram...


Framundan er AMÍ sundmótið sem er búið að stefna að í marga mánuði. Undirbúningurinn hefur verið nokkuð strangur og við hjónin skiptumst á að mæta á foreldrafundi og "undirbúningsmót." Bóndinn er áhugasamari og orðinn sunddómari en ég læt duga að sitja á bakkanum og sjá til þess að fylla á ísskápinn.


Nú þarf bara að finna nýja spennandi handavinnu sem hægt er dunda við á milli verka sem sundfararstjóri. 

19. maí 2013


Börn eru frábær í þessu, að læra eitthvað nýtt. Ég fór með Litlamanni í sveitaferð með leikskólanum hans. Oh, hann var svo spenntur. RISA stór rúta, meira að segja tvær, fór með okkur á vit ævintýranna. Þetta var allt svo spennandi. Þegar í sveitina var komið voru dýrin skoðuð fyrst...


hundurinn og hænurnar voru svolítið spennandi...



en það var ekki það sem þurfti að kanna sérstaklega heldur bæjarlækurinn...

"Hvað er nú þetta eiginlega?" 

Ég hef verið líka í minni eigin könnunarferð í hekli og prjóni. Eiginmaðurinn spurði mig hvað ég væri að búa til. "Ég hef ekki hugmynd um það" svaraði ég. Ég hef ekki verið að búa til eitthvað sérstakt, bara að gera prufur. Og það er þrennt sem ég er búin að læra:

1. Hekla saman dúllur án þess að klippa á garnið. Það var rökrétt afleiðing að læra það eftir raunir mínar með alla endana með síðasta teppi sem ég gerði. 

2. Fitja upp lykkjur fyrir prjón með heklunál. Tja, það var bara eitthvað sem ég rakst á þegar ég var að vafra á veraldarvefnum og varð bara að prófa.

Þetta gula stykki er afrakstur þeirrar vinnu. 

Algjörlega tilgangslaus tuska en gæti orðið grunnur að einhverju meira. Kannski trefill? Eldhúsgardína? Pils? 

3. Tvíbandprjón. Já, ég skellti mér að námskeið eina kvöldstund með nokkrum áhugakonum (eða svona meira pró!) af Suðurnesjum um prjón. Ég var pottþétt með minnstu reynsluna af prjóni þarna og viðurkenni fúslega að þetta var strembið. Og nú er bannað að fara að hlæja að stykkinu sem gert var á ÞREMUR klukkutímum...

Fram eða...
...aftur
Sko, þetta er sama stykkið, en báðar hliðar  sléttar.  Ég hef ekki hugmynd um  til hvers ég ætla að nota þessa færni heldur en skítt með það. Það er bara svo gaman að læra eitthvað nýtt.


13. maí 2013

Blómaábreiða

Það fer ekki á milli mála, ég er farin að bíða eftir sumrinu og ég get svoleiðis svarið það að það kom á fimmtudaginn síðasta. Þá gat ég drukkið kaffið mitt úti í garði. Já með góðum vilja var það hægt, ég held að hitinn hafi farið í 10°c. Þvotturinn á snúrunni, grillið komið út á sinn stað og trén farin að bruma.


Og þá er ekki úr vegi að frumsýna nýjasta heklverkefnið mitt. Ekki það að ég hafi byrjað á því fyrir stuttu, neihei, ég byrjaði á því fyrir einu ári síðan. Gerði nokkrar dúllur í einu og tók svo pásu. Meginástæðan fyrir því er sú  að ég hafi ekki alveg verið búin að hugsa til enda hvernig ég ætlaði að festa dúllurnar saman. Svo voru það allir endarnir sem þurfti að ganga frá, eina sem ég sagt um það er að þeir voru MARGIR. 
En svona líta sjötíu og tvær sexhyrndar dúllur út.
.



30. apríl 2013

Gamalt og gott

Ég var að sjúga í mig nýju bókina Litfríður.
Litfríður hvetur til að endurvinna, endurbæta og já búa til eitthvað splunkunýtt úr þessu gamla.
Og ég barasta varð að prófa pínulítið sjálf:
  1. Gamla lopapeysan sem tengdó prjónaði handa mér fyrir um 20 árum var farin að láta á sjá.
  2. Lobban fór í þvottavélina á 40°c - viljandi! 
  3. Gömlu lúnu járntölurnar voru klipptar af, það vantaði hvort eð er eina
  4. Nýjar tölur settar á og festar með ferskjulituðu garni
  5. Heklaði framan á ermarnar því að þær voru orðnar mjög slitnar fremst ...og voru kannski orðnar aaaðeins of stuttar eftir þæfinguna - úps!




Voila! Vonandi dugar peysan í önnur 20 ár.


22. apríl 2013

Andlaus


Óþekkti embættismaðurinn

Oft spring ég á limminu.  Eins og eftir erfiðar vinnuvikur er barasta ekkert eftir í að búa til eitthvað nýtt. Stari út í bláinn með hendur í skaut. En hvað er það sem ég geri til að "peppa mig upp", hvað er það sem fær the creative juice flowing ?

  • Að skipta um umhverfi. Ég þarf ekki mikið, skrepp aðeins í höfuðborgina, hendi brauði í hausinn á öndunum, horfi á mannlífið og nýt fallegra bygginga.
    Reykjavík apríl 2013

    Ráðhúsið 

    Tónlistarhúsið Harpa 

    Harpa 
  • Horfi á imbann með öðrum augum. Furðulegt en satt þá er hægt að sækja innblástur á ótrúlegustu stöðum. Við Litlimann sitjum oft eftir leikskóla og vinnu og horfum saman á barnaefnið. Vinsælast þessa dagana eru Abney & Teal á CBBC. Hann nýtur þess að hlæja að uppátækjum þeirra en ég nýt fallegra myndanna. Kannski ætti ég prjóna trefil eins og þennan?



  • Baka. Það er eitthvað svo róandi að skella í eina köku, hnoða gerbollur eða baka vöfflur. Það getur reyndar verið mjög frústerandi að vöfflujárnið hætti að virka og deigið límist við...en þá kemur elskulegur húsbóndinn sterkur inn og kaupir nýtt handa sinni húsfrú nær samdægurs.
Hollt og gott -  Hrákaka

  • Vinafundur. Hitta vini sem gerist orðið allt of sjaldan. Ég skil bara ekkert í því af hverju maður gefur sér ekki meiri tíma í að hitta vinina sem hafa fylgt manni í gegnum súrt og sætt - í yfir 20 ár. Það er svo gaman að borða saman, spjalla um það sem manni liggur á hjarta, já og fá innsýn í líf hvers annars - við erum nú öll í sama streðinu.

Afgangar úr matarboði, kaldur ofnbakaður lax með stökku salati.
  • Bækur. Bækur, tímarit og blogg veita mér innblástur. Kindillinn er góður, þar geymi ég t.d. uppáhalds blogg sem hafa áherslur á hugleiðingar sem eru góðar til andlegrar uppbyggingar. Pappírinn er samt alltaf bestur. Splæsti í tvær bækur nýverið Litfríður og Litríkar lykkjur úr garðinum. Báðar frábærar hvor á sinn hátt.


Nú svo er bara að vona að andinn hellist yfir mann, kannski á morgunn???


8. apríl 2013

Eitthvað vönkuð

Þessi litla kanína er eitthvað vönkuð eins og ég...


...uppskrift hér.