27. september 2015

Free spirit

Ég er að verða nokkuð klár í sokkaprjóni, svo ég monti mig aðeins. Nýja aðferðin sem ég lærði við að taka upp lykkjur á hælstalli er margfalt fallegri en sú sem ég hef gert hingað til. Engin leiðinda göt að bögga mig. Það er alltaf hægt að læra nýja tækni í prjóni :)

Annars er ég mestmegnis í almennum heimilisstörfum þessa dagana, þvo þvotta, elda og aðstoða Litlamann með heimanámið. Það getur verið heljarinnar mál stundum því hann er nú ekki á því að láta einhvern bóklestur tefja sig. Eða eins og frænka hans orðaði það: "he is a free spirit little boy."

 

 

2. september 2015

Sokkar

Ég er bara alveg að missa mig í sokkaprjóni. Þetta eru lestarsokkarnir frægu. Er búin með 4 pör og ætlaði að láta það gott heita.

En rakst svo á myndband með hvernig hægt er að taka upp lykkjur á hælstalli á fallegri hátt en það sem ég hef gert.

Svo að ég hef fitjað upp á pari fimm...

Þar til næst

XxX

 

28. ágúst 2015

Ævintýri

"Mestu vonbrigði okkar í lífinu spretta af tækifærum sem gengu okkur úr greipum og áhættu sem við tókum ekki."

Það var akkurat þetta sem gerði útslagið með að ég ákvað að ég yrði að fara til að horfa á sundgarpinn minn keppa á ólympíuhátíð æskunnar sem haldin yrði í Georgiu.
Landinu. Ekki fylkinu.

Það var alveg fyrirsjáanlegt að þetta yrði ævintýri þar sem ég reyndi að afla mér upplýsinga um borgina Tbilisi áður en farið var af stað en það var svo sem ekki úr miklu að moða. Eitthvað um að landið hefði verið hluti af fyrrverandi rússaveldi og ætti sér mikla sögu.
En hér er ferðasagan í stuttu máli:

Eitthvað voru Georgian airlines búnir að undirbúa sig fyrir hátíðina því svona leit flugvélin út sem við flugum með frá Amsterdam. Ekki slæmt flug en kannski ekki það sem við erum vön. Eða eins og húsbóndinn orðaði það svo pent: "Hvað draga þeir upp úr töskunum næst? Hænur?


Hótelið. Já ekki svo slæmt. Blessunarlega var okkur úthlutað herbergi á 4. hæð þar sem umferðargnýrinn var mikill frá götunni, en aðeins minni á fjórðu...og þessa viku sem við vorum þarna gátum við ómögulega lokað glugganum. Nú, hvers vegna töluðuð þið ekki við starfsfólkið? Tja, þarna komumst við fyrst að því að í Georgiu talar fólk almennt ekkert annað en georgísku. Sumir tala jú rússnesku en æ...við vorum svo ryðguð í henni ...


Ólympíuhátíð æskunnar. Greinilegt var að íbúarnir höfðu gert sitt besta við undirbúning og flest mannvirkin voru splunkuný. Keppnislaugin var t.d. tekin í notkun í maí síðastliðnum. 




Setningarhátíðin var stórglæsileg. Það kitlaði aðeins Íslendingsstoltið að sjá íslenska fánann borinn inn á leikvanginn. Eina sem skyggði á setninguna var að það var ekki alveg farið eftir öryggisstöðlum þegar flugeldum voru skotið á loft. Litlu mátti muna að þeir kveiktu bara í öllu klabbinu.



Það var vel búið að keppendum. Þeir voru lokuðu þorpi með gæslu og alltaf þegar þeir fóru á milli staða í rútu voru þeir í lögreglufylgd með blikkandi ljósum. Sunddrottningin mín stóð sig vel miðað við frekar töff aðstæður. En hún bætti tímann sinn í einu sundi og er reynslunni ríkari.



Svo var það borgin Tbilisi. Alveg mögnuð. Ég hefði viljað hafa meiri tíma til að skoða mig betur um. Við vorum þarna í lok júlí og hitastigið var alveg hreint ærandi, milli 34- 43°c alla daga. Erfitt að vera lengi útivið í einu og frekar auðvelt að villast þar sem götumerkingar ekki sem bestar... eða skrifað á óskiljanlegu tungumáli.






Síðan var það allt hitt. Maturinn, menningin og götusalarnir. Allt svo öðruvísi og spennandi.





Tbilisi, Georgia. Bara ævintýri.
Þangað verð ég að komast aftur.


xxx


16. júlí 2015

Sólroði






Var að ljúka við sjal. 
Ég tók þátt í "samprjóni" á Ravelry en uppskriftin var til sölu í maí, með fyrirmælum um hvaða garn og prjónastærð gætu hentað. Fyrstu vísbendingu fékk ég síðan 1. júní og komu þær svo vikulega í samtals 6 vikur. Uppskriftin er á ensku og gekk mér vel að skilja hana. Vinkona mín Fröken Googl var mér síðan innan handar þegar á reyndi ;)

Garnið keypti í New York í maí síðastliðnum í lítilli prjónabúð sem heitir The Village knitter. Afgreiðslukonan var alveg hreint yndisleg og þegar ég lenti í vanda með að velja garnið fórum við bara saman á Ravelry og fundum út úr hvaða garn hentaði best í þetta verkefni. 
Garnið er MadelineTosh merino Light og liturinn á því er ótrúlega líkur næturhimninum sem hefur verið svo fallegur núna í júní.
Mæli með garninu og búðinni ef þú átt leið um New York. 

Höfundurinn af sjalinu er ekki kominn með nafn á það ennþá en ef þú vilt nálgast uppskrift getur þú fundið hana á Ravelry undir t.d. Kirsten Kaper design.

Þar til næst
x



2. júlí 2015

Sólbrekkuskógur








"Niðurhalið" kláraðist bara alveg í júní. En nú er ég komin í sumarfrí og þá verður hlaðið aftur.

Þar til næst
x


14. júní 2015

Sumarbyrjun

Dagarnir líða hratt þegar maður hefur nóg að gera og hér hefur ekki verið neinn skortur á verkefnum.
Í maí brugðum við okkur til New York og gistum hjá afkomendum frænku sem flutti af skerinu kringum 1950. Það er svo gaman að geta, með aðstoð internetsins að styrkja ættarböndin.
Að sjálfsögðu var farið í helstu fatabúðirnar en svo var slappað af í bakgarðinum og borðaður góður matur, sem nóg er af í henni Ameríku.


Almenn heimilisstörf taka líka sinn tíma.
Í maí var tekið tekið til í eldhússkápum og þá birtust smekkir sem mér voru gefnir þegar börnin voru lítil. Ég varð auðvitað að prófa að gera mína eigin og
hér er mín útfærsla af smekkjunum.


Ég er alltaf með mörg handavinnuverkefni í gangi - sumir segja allt of mikið - en það er svo þægilegt að hafa ólík verkefni eftir því hvernig skapi ég er í. Stundum langar mann bara til að gera hugsunarlaust slétt prjón sem þægilegt er að hafa í töskunni þegar manni leiðist. Ég er sko nefnilega ekki með smartsíma í töskunni sem glepur.

Þessi skokkur er búinn að vera að þvælast með mér í töskunni síðastliðna tvo mánuði.
Uppskriftina má nálgast á Ravelry.com ókeypis undir nafninu Little sister´s dress.


Þar til næst

x

1. maí 2015

Vettlingar

Vandinn við vettlinga er að þegar maður er búinn þá er maður samt bara hálfnaður...því maður þarf væntanlega að gera annan á hina hendina.

Uppskriftina "Mittens for Mimi" er hægt að fá frítt á Ravelry.com

Þar til næst

X