23. júlí 2014

Gluggaveður


Því miður er veðrið ekki að lagast, enn blautt og svakalega þungbúið alla daga. Þessa fáu stundir sem hefur stytt upp hef ég þó farið í stuttar ferðir og verið komin heim aftur fyrir kvöldmat. Á safnadaginn fórum við mamma og Litlimann út í Gróttu og skoðuðum Nesstofu. Það var áhugavert að skoða og Litlimann hafði gaman af smáverkefnum sem Þjóðminjasafnið hefur útbúið fyrir yngstu gestina.




Annan dag fórum við í Álafosskvosina. Við gengum um og Litlimann naut sín svolitla stund í leiktækjum og síðan fórum við og fengum okkur að borða á kaffihúsinu í Kvosinni.  
Sniðugt var að á boðstólnum var mjög góður ofnbakaður fiskur þar en við borðuðum  á Tveir vitar í Garðinum nokkrum dögum seinna og þar var líka boðið upp á fisk. Ég vona bara að þetta verði meira stefnan á íslenskum veitingastöðum, að þeir bjóði upp á góðan fisk. Ég meina það er verið að kvarta undan skorti á nautakjöti, því ekki þá að bjóða upp á fisk sem við eigum nóg af. Ennþá.






Annars eru dagarnir fljótir að líða, það er nóg að gera hér heima svona eins og að taka til í geymslunni. Almenn heimilisstörf eru líka þarna, ekkert sumarfrí með það.

Prinsessan fékk vinnu í frystihúsi í Garðinum svo að það er nóg að gera að koma henni til og frá vinnu. Hún hefur verið að mæta suma morgna fyrir kl. 6.00 og koma heim um miðnætti. Þá er ekki um neitt annað að ræða en að skutla henni.
Þetta hefur í för með sér að það er hægt að fá smá frið við handavinnuna á furðulegustu tímum.

miðvikudagur kl. 06.00


Prjónaskapurinn hefur líka náð nýjum hæðum ;)
Sumir eru að prjóna borðtuskur en ég ...


....prjóna utan um golfkylfur.
Jebb, alveg orðin klikk ;)

19. júlí 2014

Allt í köku


Í áframhaldandi rigningartíð erum við Litlimann búin að baka endalaust af kökum. Sunddrottningin er einnig orðin vel liðtæk í eldhúsinu en hún er núna í tveggja vikna sumarfríi frá sundi og gerir því lítið annað þessa dagana en að borða og sofa.
Ef þig langar til að skella í möffins þá klikkar þessi uppskrift seint:


Jógúrt möffins

150 gr smjörlíki
2 bollar sykur
3 egg
2 1/2 bolli hveiti
1/2 tsk matarsóti
1/2 tsk salt
1 tsk vanilludropar
1 dós kaffijógúrt - tæpir tveir desilítrar ef þig langar til að prófa einhverja aðra tegund, sem virkar alveg jafnvel.
100 gr súkkulaðispænir 

Hitið ofninn í 200°c 
Gott að hræra fyrst saman smjörlíki, sykur og egg svolitla stund 
Bætið restinni út í og hrærið vel
Ég set að lokum súkkulaðið varlega saman við með sleif. Það er líka hægt að skipta út súkkulaði og setja hnetur eða frosin ber, bara svona eftir því hvað er til í skápunum ;)

Bakið í ca. 15 mínútur - allt eftir því hversu mikið er í hverju möffinsformi.

Uppskrift dugar í uþb. 22 muffins

Verði ykkur að góðu 


11. júlí 2014

Ögn 





Oggupínulítið teppi sem ég drattaðist til að ganga frá endum á, hekla kant, þvo og taka mynd af í kvöldsólinni. 

Stærð: 55x70 cm
Garn: Kambgarn
Uppskrift: Dúlluna er hægt að finna á netinu 
en kanturinn er úr bókinni Around the corner, crochet borders eftir Edie Eckman.

8. júlí 2014

sjö rigningardagar


sunnudagur - húsfreyjan sjálf á afmæli. ég get ekki verið með einhverjar stórkostlegar yfirlýsingar yfir hvað dagurinn var æðilegur. ég dreif mig á fætur því að á þessum bæ er ekki í boði að liggja lengi og kúra. ákvað að skella í skúffuköku og dreif uppþvottavélina í gang því ekki hafði verið hugað að því í kvöldið áður. nema hvað helv...vélin bilaði, sló út allt rafmagn í eldhúsi. til að gera leiðinlega sögu stutta þá var ekkert annað í stöðunni en að snúa sér að sjónvarpsglápi og bíða þolinmóð eftir rafvirkjanum sem auðvitað var upptekinn við annað verk. ég hafði þó bakað mér köku daginn áður sem bragðaðist mjög vel og góðri vinkonu sem rak inn nefið í hressingargöngu fannst það líka. heimilisfólkið hélt sig aftur á móti við súkkulaðiköku úr bónus.

kaka forstjórans

mánudagur - ég tók ákvörðun um að láta verða eitthvað úr deginum og dreif mig í hjólatúr með Litlamann. í þetta sinn fórum við inn nýuppgert hús og mynjasafn í eigu bæjarins. safnið er áfast við listasal bæjarins þar sem við fórum í síðasta mánuði á afmælissýningu leikskólabarna. safnið er alltaf að verða betra og betra og helsti kosturinn við það að þar úir og grúir ekki öllu saman heldur er allt fallega uppsett og hver hlutur fær að njóta sín. í sýningasalnum er núna verið að sýna verk eftir Karólínu Lárusdóttur, mjög skemmtileg sýning sem ég verð að fara aftur til að skoða betur.
og svona til að fullkomna daginn þá var hægt að gera við uppþvottavélina fljótt og örugglega. ótrúlegt hvað eitt pínulítið plaststykki getur gert til að bjarga geðheilsu húsfreyjunnar.





þriðjudagur - dreif mig í andlitsbað og smá dekur sem væri ekki frásögur færandi nema hvað að það tók mig 11 mánuði að panta tíma og drífa mig af stað. mmm, mjög svo ljúft, kannski maður dröslist til að gera þetta oftar. 
ákvað síðan að skutla regnfötunum og fötum til skiptanna í skottið á bílnum og dreif mig í sveitina. það byrjaði ekki vel því að það var nú hreinlega óveður á leiðinni og á tímabili var ég að hugsa um að snúa við því að mér er ekki vel við að ferðast ein með Litlamann í vondu veðri. í bústaðnum var grenjandi rigning og höfðu þakrennurnar ekki undan. þá var lítið annað hægt að gera en að púsla, drekka pilsner sem ég fann í skápnum eftir tengdapabba og sætta sig við glataða sjónvarpsdagskrá. handavinnan var heldur ekki langt undan.




miðvikudagur - rigning rigning rigning. lítið annað hægt að segja en það reynir á þolrifin að finna eitthvað fyrir Litlamann að gera í svona veðri. blessunarlega þarf ekki að vera þurrt til að fara í heita pottinn.



fimmtudagur - það léttir aðeins til og við drífum okkur í húsdýragarðinn í Slakka. ágætt og alls ekki yfirfullt af gestum, fólk kannski ekki búið að fatta að það er hætt að rigna...nú eða bara hafa gefist upp og komið sér heim í borgina. það var líka alveg að fara að gerast hjá okkur líka en þegar kemur smá sólarglenna og sér í heiðan himinn þá hugsar maður: æj þetta er nú ekki svo slæmt
okkur tókst til dæmis að kíkja inn í eina sveitakirkju sem var svo falleg og birtan alveg mögnuð í uppsveitunum þegar styttir upp.






föstudagur - ákvað að halda kyrru fyrir og reyndi aðeins að slá grasið við bústaðinn. reyndi það en þvílíkur frumskógur, það þarf eitthvað að skoða það að útvega stórtækari vinnuvélar en litla krúttlega rafmagnsláttuvél. nú eða bara lýsa frati á þetta og gerast snillingar í að blása sápukúlur.



laugardagur - prinsessa #1 , sunddrottingin og húsbóndó ákveða að koma í sveitina í sólarhringsheimsókn. grillið dregið fram, sullað í pottinum, húsbóndó settur í smáverkefni sem þörf var á að græja í bústaðnum eins og að kítta í göt og setja nýjar lamir. renndum aðeins niður að Apavatni en þangað höfum við aldrei komið þrátt fyrir að vera aðeins í 20 mínútna akstri frá bústaðnum.
við renndum ekki fyrir silung en leystum það með því að kaupa hann bara beint af bóndanum. nú verður bara japlað á silung ofan á brauð næstu daga. ekki amalegt það.


26. júní 2014

Sumarfrí



Ég hef ekki miklar væntingar til góðrar veðráttu á pallinum hér heima.
Ég stóðst þó ekki mátið og keypti mér stórglæsilega sumarstóla til að hafa við
gamla sófaborðið frá tengdó. Kannski verður hægt að drekka morgunkaffið í morgunsólinni einn dag án húfu og vettlinga þetta sumarið. Kannski.

Okkur tókst nú samt eitt síðdegið að skella í okkur vöfflum í skjóli hússins milli þess sem bletturinn túnið var slegið. Ég meina það er barasta aldrei þurrkur (mjög svo blautur júní) og þegar styttir upp þá er sko vissara að draga út sláttuvélina. 
  

En þetta er svo sem allt í lagi, þetta veður. Það er alveg hægt að finna sér eitthvað að gera. Litlimann er búinn að vera í sundskóla núna í júní, svona rétt til að undirbúa hann fyrir skólasundið. Hann er búinn að vera voða duglegur og svei mér ef að hann er ekki sífellt að bæta tímann við að þurrka sér/klæða sig sjálfur. Það er allaveganna á hreinu að ég fer ekki með honum þegar hann þarf að bjarga sér sjálfur í 1.bekk.

Við fórum líka saman í golf á sunnudaginn var.
Litlimann var ófeiminn við að sveifla kylfunni sem reyndar var alltof stór fyrir hann.
Þessi mynd er eitthvað svo lýsandi fyrir alltjént  þessa ferð, Litlimann að berjast við að hitta boltann og húsbóndinn út í móa að leita að boltanum sínum...eða mínum!?!


Svo er líka hægt að dunda við ýmislegt sem er óklárað og/eða hefur setið á hakanum.
Ég hef verið að dunda mér við pínulítið heklað teppi. Það átti ekki að verða neitt, það er að segja ég var að kenna einni í vinnunni að hekla og brátt voru dúllurnar orðnar nokkrar svo að ég ákvað að drífa í að hekla þær saman.


Ég hef líka verið að lesa eitthvað annað en vinnutengt. Ég var að lesa Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur. Alveg ljómandi góð bók sem er byggð á sögulegum grunni.

Mér finnst líka voða gaman að koma við í nytjamarkaðinum og þar leynist stundum gersemar. Ég meina ég fékk listaverkabókina um Luisu á 200 kr. Heppin ég. Ég sver það, bókin hefur ekki einu sinni verið opnuð. Ég hef lengi aðdáandi verka hennar og nokkrum sinnum gluggað í bókina á bókasafninu. Litirnir og myndefnið er svo frábært hjá henni. Svo er líka hægt að velta fyrir sér ferli hennar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að hún var/er svo lítið þekkt? Það má velta því fyrir sér að ástæðan hafi kannski verið af því að hún var kona?


Það er líka stutt í léttlestrarefnið. Ég fann t.d. þetta gamla Burda prjónablað á nytjamarkaðinum. Útgefið 1982. Ég á svo sem ekki eftir að gera neitt úr því frekar en úr Lopabæklingunum sem ég fékk sent frá aldraðri frænku sem var handmenntakennari. Henni var hugsað til mín því að nú er hún að losa sig við uppskriftirnar/handavinnubækurnar og var svo ánægð með prjónaða sjalið sem ég sendi henni á aðventunni. Því miður er hún að verða alveg blind og getur ekki lengur gert handavinnuna sína. Aww...
Þetta er allavega fjársjóður í mínum huga og verður geymt sem slíkt. 




12. júní 2014

Barnahúfa

Ég er þessa dagana að nota upp garn sem leynist hér um allt hús.
Þennan fjólubláa lit átti ég eina staka dokku, og eitthvað hafði nú ég verið búin
að taka af henni því að til að ég gæti klárað húfuna varð hún í það grynnsta.
En Litlimann er bara nokkuð ánægður og segist ætla að nota hana. 



Garnið er Smart, uppskriftin úr Garn og gaman en Super Maríó sveppurinn er saumaður í eftir á.

4. júní 2014

Mánuðurinn sem leið

Maí hefur gjörsamlega flogið áfram og það er kominn júní.
Ég hef ekki gefið mér tíma til að taka til í garðinum en merkilegt nokk
virðist eitthvað koma upp ár eftir ár.
Líka stjúpurnar sem eiga að vera einærar.



Ég hef nú meira verið að njóta veðursins.
Hef til dæmis farið í hjólatúra með Litlamann sem er 
nýbúinn að læra að hjóla án hjálpardekkja.



Fór í afmælisboð bæjarins en leikskólabörn allra leikskóla Reykjanesbæjar 
voru búin að búa til heljarinnar veislu. Eins og alltaf eru leikskólarnir með á
hreinu hvernig á að gera hlutina almennilega og flotta.




Síðan hefur ekki farið fram hjá manni kjarabarátta.
Æji ég veit ekki...best að pæla ekki of mikið í því.


Svo fór ég á sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur, Handverk og hönnun.
Þar freistaðist ég til að kaupa mér handspunnið, handlitað garn úr Borgarfirðinum.
Er með pínulitla hugmynd hvað ég ætla að gera við það,
sjáum til hvað verður.


Og síðan ég lauk við enn eitt sjalið.
Það er svolítið hippalegt en svei mér þá ef það á ekki 
eftir að verða uppáhaldssjalið.
Garnið er Cascade 220 og uppskriftin er úr Maríu heklbók.