27. janúar 2013

Aðgerðalisti

Listar eru til margs nýtilegir.
 Það er svo þægilegt að búa til lista yfir það sem þarf að gera eða komast yfir.
Stundum er listinn langur.
Stundum er listinn með einhverju leiðinlegu en verður að gera samt.
Og alltof oft gleymist að setja inn á listann eitthvað fyrir alla, ef þið vitið hvað ég á við.

Listinn síðustu helgina í janúar:

matarinnkaup
setja í þvottavél
elda kvöldmat
setja í aðra þvottavél (komst ekki í það, sofnaði yfir imbanum)

þvo smekkina sem ég gerði um síðustu helgi


setja í þvottavél
ganga frá eftir morgunmat
gefa að borða
ganga aftur frá í eldhúsinu

út að labba í snjónum


renna á þoturassi (uhumm, læt þá yngri um það)

búa til snjóengla


leggja sig eftir tveggja tíma útiveru (já, já, læt þá yngri um það...
en eftir á að hyggja hefði ég átt að gera það líka)

ganga frá í eldhúsinu
meiri matarinnkaup  (hvenær lærir maður að koma heim með allt það sem vantar ?)
setja í þvottavél
þrífa baðherbergi
lita í litabækur
elda kvöldmat

horfa á eurovision
leggja sig með Litlamann
lesa í Kindlinum

fá sér hollan morgunmat 
fara í sunnudagaskólann
setja í þvottavél (það er alveg magnað hvað það sést sjaldan í botninn á þvottakörfunni)
gefa Litlamann að borða

klára Hallgrímshúfu
ganga frá endum á Hallgrímshúfu
læra betur að lesa eftir enskum prjónauppskriftum...


Já, ókey ég veit að það er ekki hægt að gera allt í einu,
kannski verður listinn styttri næst  !




9. janúar 2013

Treflar





Ég keypti mér flottheita garn í höfuðborginni á aðventunni. 
Ljósari trefillinn er úr Isager Höjlandsgarn og dökkblái trefillinn er úr 2 tveimur Merino soft superwash.
Peningaveskið varð mikið mun léttara...
....en treflarnir eru fallegir.

8. janúar 2013

Lífsins ólgusjór.


Eitt sinn var skipstjóri sem hafði ferðast um mikinn ólgusjó.
Tugi ára hafði honum þó tekist að sigla heimsins höf án
teljandi vandræða.
Ávallt hafði honum tekist að koma áhöfn sinni heilli að landi aftur.

Í skipi sínu geymdi skipstjórinn læstan kistil. 
En enginn vissi hvað var í kistlinum en stundum sáu skipsverjar hann 
ljúka honum upp en ekki vildi skipstjórinn sýna hvað
var í kistlinum. 
Á gamalsaldri féll svo skipstjórinn frá og þá gafst tækifæri til að kanna
hvað væri í kistlinum og sjá sannleikann.

Í honum var ekkert nema lítill bréfmiði.
Á honum stóð:

 "Stjórnborði til hægri, bakborði til vinstri"


Þessa sögu sagði pabbi stundum og ég hafði svo sem engan skilning á því hvað hún táknaði.
Ef hún táknaði þá eitthvað.
En í lífsins ólgusjó er það einfalda sem skipti máli, 
bara svona rétt til að minna mann á að þrátt fyrir erfiðleika og vanda er alltaf "skilaboð" sem gott er að hafa til vísa veginn.


28. desember 2012

Á aðventu 2012


Eins og oft áður er desember mánuður mikilla anna. 
Einhverra hluta vegna gefst lítill tími til alls sem á að gera
en einhvern veginn smellur allt saman.

Í byrjun desember brunuðum við upp í Vindáshlíð til að velja okkur jólatré.
Við höfum talað um að fara í mörg ár en nú létum við verða af því
Og þetta hitti alveg í mark fyrir utan frosnar tær og fingur  og samdóma álit 
allra að þetta verði gert aftur fyrir næstu jól

Frá Vindáshlíð, Írafell og Skálafell í bakgrunni
Auðvitað var "rétta" tréð falið lengst inni í skógi og
þrautinni þyngri að koma því niður á veg.
Tréð varð líka að vera STÆRSTA og BESTASTA tréð.
Ég held að það hafi verið búið að saga neðan af því hátt í þrjá metra
þegar það var komið í jólatrésfótinn.


Svo hefur verið bakað á S34. Ég baka nú reyndar allan ársins hring
en það er eitthvað svo galið og um leið skemmtilegt að hafa klístraða
fingur með í bakstrinum.


En eitt stykki handarbrák varð líka að vera með á aðventu.
Voðalega varð prinsessa #2 súr yfir því að geta ekki tekið þátt í öllu 
og þá sérstaklega að missa af aðventusundmótum. 
En þetta hefði getað verið verra, vel sloppið í þetta sinn.


Stundum gafst tækifæri til að ganga frá lausum endum.
Þessar dúllur gerði ég í sumar
en hafði sleppt því að ganga frá endum.


Svo voru Aðeins fleiri endar að ganga frá á haustteppinu.



En við gátum líka notið jólaljósanna sem allir hinir hafa lagt mikinn metnað í.




Aðfangadagskvöld rann svo upp öllum að óvörum með kalkún og öllu tilheyrandi.
Það var úrvinda húsfreyja sem fór að sofa þá nóttina.


Í lok árs er svo hefð fyrir því að líta yfir farinn veg.
Þegar ég skoða dagbókarfærslur ársins sé ég hversu mikið ég
hef áorkað. Og er barasta nokkuð stolt.
Stolt af fjölskyldunni minni og fallega heimilinu okkar. 

Ég óska fjölskyldu og vinum nær og fjær ...


... GLEÐILEGT NÝTT ÁR.




4. desember 2012

3. desember 2012

2. desember 2012

Hálstau

Ég veit ekki hvort að orðið trefill sé nógu fallegt yfir það sem ég var að ljúka við.
Uppskriftina að þessari dásemd er að finna í haustblaði Interweave Crochet.
Tær snilld.