12. júní 2014

Barnahúfa

Ég er þessa dagana að nota upp garn sem leynist hér um allt hús.
Þennan fjólubláa lit átti ég eina staka dokku, og eitthvað hafði nú ég verið búin
að taka af henni því að til að ég gæti klárað húfuna varð hún í það grynnsta.
En Litlimann er bara nokkuð ánægður og segist ætla að nota hana. 



Garnið er Smart, uppskriftin úr Garn og gaman en Super Maríó sveppurinn er saumaður í eftir á.

4. júní 2014

Mánuðurinn sem leið

Maí hefur gjörsamlega flogið áfram og það er kominn júní.
Ég hef ekki gefið mér tíma til að taka til í garðinum en merkilegt nokk
virðist eitthvað koma upp ár eftir ár.
Líka stjúpurnar sem eiga að vera einærar.



Ég hef nú meira verið að njóta veðursins.
Hef til dæmis farið í hjólatúra með Litlamann sem er 
nýbúinn að læra að hjóla án hjálpardekkja.



Fór í afmælisboð bæjarins en leikskólabörn allra leikskóla Reykjanesbæjar 
voru búin að búa til heljarinnar veislu. Eins og alltaf eru leikskólarnir með á
hreinu hvernig á að gera hlutina almennilega og flotta.




Síðan hefur ekki farið fram hjá manni kjarabarátta.
Æji ég veit ekki...best að pæla ekki of mikið í því.


Svo fór ég á sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur, Handverk og hönnun.
Þar freistaðist ég til að kaupa mér handspunnið, handlitað garn úr Borgarfirðinum.
Er með pínulitla hugmynd hvað ég ætla að gera við það,
sjáum til hvað verður.


Og síðan ég lauk við enn eitt sjalið.
Það er svolítið hippalegt en svei mér þá ef það á ekki 
eftir að verða uppáhaldssjalið.
Garnið er Cascade 220 og uppskriftin er úr Maríu heklbók.





15. maí 2014

Hringtrefill




Fljótgerður hringtrefill, uppskriftin er úr Maríu heklbók.
Garnið er tvær hespur af handlituðu Merino sem ég keypti í garnbúð í Florida.

7. maí 2014

Sumir dagar


Sumir dagar eru langir. 
Verkefnin mörg og sér ekki fyrir
endann á að geta lokið þeim.

Vinnan sem innkoman er af er strembin
og verkefnin virðast einhvern veginn hlaðast upp.

Halda heimili er óendanleg vinna, 
elda, þvo, þurrka, baða, koma á ró á kvöldin.

Þá er gott að hafa handavinnuna, 
eitthvað sem tæmir hugann og 
árangur vinnunnar áþreifanleg.



2. maí 2014

Jarðarberjapeysa




Krúttleg og sæt fyrir allan peninginn!

Note to myself:
ALDEI aftur rendur í peysu
ALDREI aftur ermar fram og til baka...og sauma síðan saman eftir á
...

Uppskrift úr prjónadagatali Kristínar Harðardóttur 2014.



6. apríl 2014

Rómantík






Anna hallaði sér aftur í stólnum eitt milt októberkvöld og andvarpaði. Hún sat við borð þakið skólabókum og þéttskrifuðum blöðum sem virtust ekkert eiga skylt við lærdóm eða kennslu.  
"Hvað er að?" spurði Gilbert sem kom í eldhúsdyrnar og heyrði andvarpið. Anna roðnaði og stakk skrifum sínum undir skólabækurnar. "Ekkert alvarlegt. Ég var bara að reyna að skrifa hugsanir mínar eins og prófessor Hamilton ráðlagði mér en ég gat ekki fengið þær til að koma almennilega út. Þær virðast svo kjánalegar þegar ég les þær, svartar á hvítu. Draumórar eru eins og skuggar - það er ekki hægt að fanga þá, þeir eru svo duttlungafull og dansandi fyrirbæri. En kannski læri ég leyndardóminn á bak við það einhvern tíma ef ég held áfram að reyna. Ég hef ekki svo mikinn frítíma. Þegar ég er búin að leiðrétta skólaverkefnin og stílana nenni ég ekki alltaf að skrifa fyrir sjálfa mig."  
                                                        - Anna í Grænuhlíð



11. mars 2014

Púði

Fyrir fimm árum keypti ég garn í kassa í Storkinum. Uppskriftin fylgdi með. Þetta átti að verða svo sætur prjónaður poki. Jamm og jæja. Uppskriftin var á ensku og ég var bara ekki að nenna að pæla í henni.

Fyrir einu ári tók ég fram garnið aftur. Kannski gæti ég bara heklað tösku í staðinn? Jú, taska skyldi þetta verða. Var búin með dúllurnar en einhvern veginn læddist að mér sá grunur að ég myndi aldrei nota svona hippalega tösku. Kannski gæti taskan farið í einhvern pakkann? Æji nei. Eitthvað svo glatað.

En svo kom hugmyndin. Kannski þetta yrði bara ágætur púði. Jahá, púði skyldi þetta verða.
Ég held að ég sé bara nokkuð sátt með útkomuna.