2. maí 2014

Jarðarberjapeysa




Krúttleg og sæt fyrir allan peninginn!

Note to myself:
ALDEI aftur rendur í peysu
ALDREI aftur ermar fram og til baka...og sauma síðan saman eftir á
...

Uppskrift úr prjónadagatali Kristínar Harðardóttur 2014.



6. apríl 2014

Rómantík






Anna hallaði sér aftur í stólnum eitt milt októberkvöld og andvarpaði. Hún sat við borð þakið skólabókum og þéttskrifuðum blöðum sem virtust ekkert eiga skylt við lærdóm eða kennslu.  
"Hvað er að?" spurði Gilbert sem kom í eldhúsdyrnar og heyrði andvarpið. Anna roðnaði og stakk skrifum sínum undir skólabækurnar. "Ekkert alvarlegt. Ég var bara að reyna að skrifa hugsanir mínar eins og prófessor Hamilton ráðlagði mér en ég gat ekki fengið þær til að koma almennilega út. Þær virðast svo kjánalegar þegar ég les þær, svartar á hvítu. Draumórar eru eins og skuggar - það er ekki hægt að fanga þá, þeir eru svo duttlungafull og dansandi fyrirbæri. En kannski læri ég leyndardóminn á bak við það einhvern tíma ef ég held áfram að reyna. Ég hef ekki svo mikinn frítíma. Þegar ég er búin að leiðrétta skólaverkefnin og stílana nenni ég ekki alltaf að skrifa fyrir sjálfa mig."  
                                                        - Anna í Grænuhlíð



11. mars 2014

Púði

Fyrir fimm árum keypti ég garn í kassa í Storkinum. Uppskriftin fylgdi með. Þetta átti að verða svo sætur prjónaður poki. Jamm og jæja. Uppskriftin var á ensku og ég var bara ekki að nenna að pæla í henni.

Fyrir einu ári tók ég fram garnið aftur. Kannski gæti ég bara heklað tösku í staðinn? Jú, taska skyldi þetta verða. Var búin með dúllurnar en einhvern veginn læddist að mér sá grunur að ég myndi aldrei nota svona hippalega tösku. Kannski gæti taskan farið í einhvern pakkann? Æji nei. Eitthvað svo glatað.

En svo kom hugmyndin. Kannski þetta yrði bara ágætur púði. Jahá, púði skyldi þetta verða.
Ég held að ég sé bara nokkuð sátt með útkomuna.


14. febrúar 2014

Sjal og grifflur


Sjalið Regnbogi er tilbúið. Annað sjalið sem ég geri eftir þessari uppskrift sem ég fann í Fréttablaðinu en ég held að það sé hægt að nálgast hana hjá Storkinum en það heitir Bláberjarönd - ílöng hyrna.



Nú svo þegar ég var byrjuð á annað borð þá gerði ég grifflur úr garninu líka. Garnið heitir Manos del Uruguay og er 30% silki og 70% merino ull. Klikkað dýrt garn en ef ég finn það aftur þá hika ég ekki við að kaupa meira, ég meina það er æði. Ef þig langar til að skoða meira um þetta garn er falleg heimasíða hér. Uppskriftina að þessu snilldar grifflum má nálgast hér en garnið er keypt hér.



Og auðvitað varð Litlimann að fá grifflur líka, en uppskriftina má nálgast hér.




22. janúar 2014

Regnbogi



Keflavík 21.01.2014

Ég keypti afskaplega fínt silki/ullargarn í NY í desember. Litirnir eru hreinlega allir litir regnbogans og mjög svo yrjótt. Ég ætla að prjóna sjal - engin nýlunda þar - en ég er spennt að sjá útkomuna.

11. janúar 2014

Spariterta

Hér á þessu heimili er að koma hefð á að ég baki tertu sem við gæðum okkur á fyrsta klukkutímanum á nýárinu.
Í ár urðu þær tvær, Hindberja-brownies með súkkulaði og rjómaosti og Chili-súkkulaðitruffluterta.
Uppskriftirnar fann ég í fallegri bók Eldað og bakað í ofninum heima .


Hindberja kökurnar heppnuðust ágætlega en það er ekki hægt að segja að þær séu fallegar.

Chili-súkkulaðitrufflutertubotnarnir voru aftur á móti ekki að gera sig. Í fáum orðum skulum við segja að botnarnir líktust meira grjóthörðu hrökkbrauði heldur en dúnmjúkum súkkulaðibotnum.

En ég gafst ekki upp. Notaði gömlu góðu uppskriftina að súkkulaðibotnum sem ég fékk frá tengdó við upphaf búskapar. Klikkar aldrei.
Svo var ráðist í að gera kremið á milli og ofan á.
Umm, mjög gott. Mæli samt með því að hafa allan heimsins tíma fyrir sér því að það er seinlegt að hræra trufflukrem.


Læt hér fylgja með uppskriftina af botnunum frá tengdó,

Brjáluð súkkulaðikaka:

1 bolli sykur
1 egg
1 1/2 bolli hveiti
1/2 bolli kakó
1 tsk lyftiduft
1 tsk natrón
1/2 tsk salt
2 tsk vanilludropar
1/2 bolli smjörlíki (ca. 50 gr)
1/2 bolli nýmjólk
1/2 bolli mjög heitt vatn
 ______________

Öllu sullað saman, hrært saman í ca. 3 mín.
Bakað í 2 lausbotna tertuformum, þægilegt að hafa smjörpappír á botninum.
Bakað við180° í 25 mín. eða þar til botnarnir eru lausir frá börmunum.

Gott er að smyrja á milli með jarðaberjasultu og nota smjörkrem sem líkar best.

8. janúar 2014

Hneta

Ég heklaði þessa húfu á tveimur kvöldum. Einfalt og fljótgert.
Litlimann sagði að húfan væri eins og hneta, jebs ég held það sé rétt hjá honum.
Uppskriftina má nálgast hér.