Hendur til góðra verka
Ég fann þessa konu sem fagnar öllu handgerðu og ljósmyndar það svo fallega.
Ég efast stórlega um að við gefum gaum að öllu því sem við gerum daglega með höndum og hversu mikil gæfa það er að fá að skapa eitthvað nýtt.
Og þjálfunin sem þarf er mikil til að ná góðri færni.
En ánægjan yfir vel unnu verki er dásamleg.
Eitt af því sem mér finnst gaman að gera er að baka úr geri , það er eitthvað svo gaman að handfjatla deigið, finna hvernig það breytist í höndunum á mér og möguleikarnir endalausir.
Ég rakst á þessa uppskrift í tímaritinu House to home að þessu fína rúsínubrauði. Ég verð að viðurkenna að mér fannst það hefast lítið áður en það fór inn í ofninn en það stóð "...until it´s doubled in size". Ég var farin að rifja upp fyrri glötuð afrek í bakstri þegar brauðið verður eins og trjádrumbur og þurrari en allt þurrt.
Þegar brauðið kom út ofninum var það aftur á móti svo flott og gott og ekki var verra að það var drjúgt, það dugði í 2 daga á heimilinu.
Kanil - rúsínu brauð
500 g hveiti + hveiti til að hnoða með
100 g sykur
1 tsk salt
2 msk kanill
1 bréf þurrger
150 g rúsínur eða þurrkuð trönuber (cranberries)
300 ml volg mjólk
30 g brætt smjör
Hnoðað létt saman í hrærivélinni með hnoðaranum en hnoðað í 10 mínútur á borðinu, bætt við svolitlu hveiti reglulega. Mældi ekki hveitimagnið en ímynda mér að það hafi verið um 100 g.
Hnoðað í 3 lengjur sem eru fléttaðar saman og endarnir brotnir undir. Sett á bökunarpappír og plastfilma sem hefur verið smurð með olíu sett yfir meðan deigið hefar sig. Ég lét það hefast í góðan klukkutíma. Mundu eftir að taka plastfilmuna af áður en þú setur brauðið inn í 200 °c heitan ofninn. Bakað í 20 mínútur, hitinn lækkaður í 180°c og bakað áfram í 25 mínútur. Setti 3 msk sykur út í 2 msk soðið vatn sem smurt er fyrir brauðið um leið og það kemur úr ofninum, það gefur brauðinu fallegan gljáa .
Og að lokum, árshátíð í skólanum á morgun og allir að koma með veitingar á hlaðborðið. Ég bakaði þessar, vonandi renna þær ljúflega niður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.