8. júlí 2014

sjö rigningardagar


sunnudagur - húsfreyjan sjálf á afmæli. ég get ekki verið með einhverjar stórkostlegar yfirlýsingar yfir hvað dagurinn var æðilegur. ég dreif mig á fætur því að á þessum bæ er ekki í boði að liggja lengi og kúra. ákvað að skella í skúffuköku og dreif uppþvottavélina í gang því ekki hafði verið hugað að því í kvöldið áður. nema hvað helv...vélin bilaði, sló út allt rafmagn í eldhúsi. til að gera leiðinlega sögu stutta þá var ekkert annað í stöðunni en að snúa sér að sjónvarpsglápi og bíða þolinmóð eftir rafvirkjanum sem auðvitað var upptekinn við annað verk. ég hafði þó bakað mér köku daginn áður sem bragðaðist mjög vel og góðri vinkonu sem rak inn nefið í hressingargöngu fannst það líka. heimilisfólkið hélt sig aftur á móti við súkkulaðiköku úr bónus.

kaka forstjórans

mánudagur - ég tók ákvörðun um að láta verða eitthvað úr deginum og dreif mig í hjólatúr með Litlamann. í þetta sinn fórum við inn nýuppgert hús og mynjasafn í eigu bæjarins. safnið er áfast við listasal bæjarins þar sem við fórum í síðasta mánuði á afmælissýningu leikskólabarna. safnið er alltaf að verða betra og betra og helsti kosturinn við það að þar úir og grúir ekki öllu saman heldur er allt fallega uppsett og hver hlutur fær að njóta sín. í sýningasalnum er núna verið að sýna verk eftir Karólínu Lárusdóttur, mjög skemmtileg sýning sem ég verð að fara aftur til að skoða betur.
og svona til að fullkomna daginn þá var hægt að gera við uppþvottavélina fljótt og örugglega. ótrúlegt hvað eitt pínulítið plaststykki getur gert til að bjarga geðheilsu húsfreyjunnar.





þriðjudagur - dreif mig í andlitsbað og smá dekur sem væri ekki frásögur færandi nema hvað að það tók mig 11 mánuði að panta tíma og drífa mig af stað. mmm, mjög svo ljúft, kannski maður dröslist til að gera þetta oftar. 
ákvað síðan að skutla regnfötunum og fötum til skiptanna í skottið á bílnum og dreif mig í sveitina. það byrjaði ekki vel því að það var nú hreinlega óveður á leiðinni og á tímabili var ég að hugsa um að snúa við því að mér er ekki vel við að ferðast ein með Litlamann í vondu veðri. í bústaðnum var grenjandi rigning og höfðu þakrennurnar ekki undan. þá var lítið annað hægt að gera en að púsla, drekka pilsner sem ég fann í skápnum eftir tengdapabba og sætta sig við glataða sjónvarpsdagskrá. handavinnan var heldur ekki langt undan.




miðvikudagur - rigning rigning rigning. lítið annað hægt að segja en það reynir á þolrifin að finna eitthvað fyrir Litlamann að gera í svona veðri. blessunarlega þarf ekki að vera þurrt til að fara í heita pottinn.



fimmtudagur - það léttir aðeins til og við drífum okkur í húsdýragarðinn í Slakka. ágætt og alls ekki yfirfullt af gestum, fólk kannski ekki búið að fatta að það er hætt að rigna...nú eða bara hafa gefist upp og komið sér heim í borgina. það var líka alveg að fara að gerast hjá okkur líka en þegar kemur smá sólarglenna og sér í heiðan himinn þá hugsar maður: æj þetta er nú ekki svo slæmt
okkur tókst til dæmis að kíkja inn í eina sveitakirkju sem var svo falleg og birtan alveg mögnuð í uppsveitunum þegar styttir upp.






föstudagur - ákvað að halda kyrru fyrir og reyndi aðeins að slá grasið við bústaðinn. reyndi það en þvílíkur frumskógur, það þarf eitthvað að skoða það að útvega stórtækari vinnuvélar en litla krúttlega rafmagnsláttuvél. nú eða bara lýsa frati á þetta og gerast snillingar í að blása sápukúlur.



laugardagur - prinsessa #1 , sunddrottingin og húsbóndó ákveða að koma í sveitina í sólarhringsheimsókn. grillið dregið fram, sullað í pottinum, húsbóndó settur í smáverkefni sem þörf var á að græja í bústaðnum eins og að kítta í göt og setja nýjar lamir. renndum aðeins niður að Apavatni en þangað höfum við aldrei komið þrátt fyrir að vera aðeins í 20 mínútna akstri frá bústaðnum.
við renndum ekki fyrir silung en leystum það með því að kaupa hann bara beint af bóndanum. nú verður bara japlað á silung ofan á brauð næstu daga. ekki amalegt það.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.