29. mars 2013

Síðan síðast


Litli mann fékk hlaupabólu og það ekkert smávegis. Hann var meldaður veikur í 8 daga. Blessunarlega hefur hann verið heilsuhraustur hingað til en þessi veikindi tóku hraustlega á, úthaldið hjá honum var ekkert á áttunda degi en það er allt að koma.


Prinsessa #2 er alltaf að selja eitthvað til að safna í sundmótasjóðinn sinn. Nú síðast var hún að selja kartöflur, svo að hér hafa verið kartöflur í öll mál. Soðnar, kryddaðar, franskar, kartöflumús og síðast en ekki síst bökuð kartöflumús í ofni. Mmmm...


Öðru hverju er ég beðin um að skrautskrifa í bækur og kort. Það er alltaf jafn skemmtilegt en vinnan er mikil á bak við eitt kort. Ég vona bara að þiggjandinn kunni að meta það.


Ég var búin að einsetja mér að komast í bústaðinn eitthvað um páskana og það tókst. En það er lítið frí og afslöppun í því. Í vetur byrjaði ofn í stofunni að leka en sem betur fer er bústaðurinn svo illa einangraður í gólfinu að vatnið rann bara í gegn - já stundum er gott að byggt var af vanefnum fyrir 30 árum.
En semsagt...


...við skötuhjúin hjálpuðumst við að koma upp nýjum ofni ogLitlimann þvældist fyrir aðstoðaði á hliðarlínunni.


En meðan húsbóndinn dundar við að dytta að bústaðnum fer ég í gönguferðir um nágrennið. 
Þessa þrjá daga sem við dvöldum var yndislegt veður, hitinn um 5°c en vindkælingin var svolítil - reyndar brunakuldi þegar komið var upp á hól...


en vel þess virði þegar á toppinn er komið.

Biskupstungur 2013

Eftir að rafmagnið kom í bústaðinn er gott að geta setið á kvöldin við rafmagnsljós og lesið já eða prjónað. Ég lauk við þessa litlu nýburapeysu en þegar kemur að velja tölur fyllist ég alltaf valkvíða.


En þetta varð lokaniðurstaðan. 


Peysan er prjónuð frá hálsmáli niður og uppskriftin er fríkeypis á Ravelry sem nýburapeysa. En það er hægt að nálgast hana í stærri stærðum gegn nokkurra $ greiðslu.

En þar til næst þá hef ég augu mín til fjallanna...


5 ummæli:

  1. þú ert svo mikil handavinnukona - Rosalega fallegt allt sem þú gerir - öfund hérna megin yfir öllum þessum dugnaði og fallegu flíkum og hlutum... fyrir utan hvað þú skrautskrifar vel - það er vel metið það sem þú hefur skrifað fyrir mig :)

    SvaraEyða
  2. Skemmtileg bloggfærsla hjá þér. Og takk fyrir að deila uppskriftinni, ég hlóð henni niður, líst vel á hana. Gleðilega páska!

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk fyrir Hellen Sigurbjörg. Bloggskrifin eru eru einhvernveginn út um allt þessa dagana - eins og hugurinn stoppi hvergi og skrilljón verkefni í gangi :)

      Eyða
  3. Sæl, Áslaug, ég skal þýða uppskriftina að inniskónum við fyrsta tækifæri. Kv. Hellen

    SvaraEyða

Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.