22. janúar 2015

Lögst í dvala eða...

...nei ekki alveg. Hér á hafa orðið svolitlar breytingar á heimilishaldinu.
Ég er hætt kennslu í bili og er nú heimavinnandi húsmóðir í fullu starfi.

Ástæður þessara breytinga eru ýmsar og gæti ég auðveldlega skrifað langan lista en þetta hefur verið að íþyngja mér í langan tíma.

Í fyrsta lagi er það Litlimann. Hann hefur ekki átt sérstaklega góða skólabyrjun. Hann kom illa út úr fyrstu skimunarprófum í lestri í skólanum. Félagslega hefur líka gengið upp og ofan hjá honum. Hann þarf bara eitthvað meira en það sem ég gat veitt honum í lok erfiðs vinnudags hjá okkur öllum. Og það er alveg á tæru að ef að við foreldrarnir hjálpum honum ekki hver gerir það þá?


Í öðru lagi var hjartað mitt hætt að slá með því sem ég var að gera í vinnunni þ.e.a.s ég mætti alltaf til vinnu en farin að finna fyrir alvarlegri kulnun í starfi. Eftir miklar vangaveltur og hafa rætt við fólkið sem stendur mér næst þá var niðurstaðan að hætta alveg. Það var hræðilega erfið ákvörðun. Ég sakna samstarfsfólks en ekki síður nemandanna sem voru orðnir eins og mín eigin börn. Þetta var fimmti veturinn minn í skólanum og svo ótalmargt sem ég hef lært af þeim og vonandi hef ég eitthvað kennt þeim.



Í þriðja lagi var kominn tími til að huga að líkamlegri heilsu minni. Ekkert alvarlegt, nota bene, en þetta litla hér og þar sem verður að gæta að. Blóðþrýstingurinn hefur verið á uppleið, þol og úthald ekkert og "stoðkerfisvandi" farinn að gera vart við sig eins og verkir í mjöðmum sem auðvitað koma af því að ég er orðin allt of þung. Líkaminn sem sagt farinn að segja NEI, og ég verð að gera eitthvað í málunum.



Viðbrögð fólks við því að vera hætt í vinnunni hafa verið mismunandi. Greinilegt er að það er mikilvægt að hafa vinnu, ekki síst varðandi tekjur, en því miður lítur stundum út eins og það sem ég hef nefnt hér að ofan séu bara ekki nógu góðar ástæður til að hætta í vinnu. Athyglisverðustu kommentin eru þó "það er munaður að annar aðilinn sé bara fyrirvinna." Ég skil það vel og það verður auðvitað þrengra í búi næstu vikur en það er mikilvægt að forgangsraða rétt. Ekki bara tala um það og læka á vefmiðlum þegar greinar birtast um mikilvægi þess að hlú að því sem manni er kærast.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Skildu eftir skilaboð. Gaman að heyra hvað þér finnst.
Please leave a message. Love to hear from you.