27. október 2013

Trefill

Ég lenti í smá krísu með þennan trefil. Hann er svo ægifagur í blaðinu en þegar ég spurði fólkið í kringum mig um litavalið voru svörin í líkingu við þetta: 


"mamma, það er ekki svona í tísku...ég meina, svo er ég unglingur og myndi aldrei vera með svona"


Já , ég verð að horfast í augu við það. Ég er ekki unglingur og nokk sama hvað öðrum finnst klæðilegt - innan skynsamlegra marka ;)


Ég meina, hvað er ekki hægt að líka við þetta? Haustlitir, hlýtt, öðruvísi, skemmtilegt og náttúra. Allt í sama treflinum.

Þessum er allaveganna slétt sama...

22. október 2013

Vetrarfríið í hnotskurn

Smá...



...sveitasæla þegar við náðum að gista eina nótt í bústaðnum, anda að okkur sveitaloftinu og svamla í heita pottinum.

Smá...

...keypt af garni. Ég veit að það var ekki þörf en sko þegar maður á leið framhjá búðinni í sveitinni og maður freistast til að "skjótast aðeins inn" þá labbar maður ekki svo auðveldlega út aftur með tvær hendur tómar (tja, nema þá helst peningalega séð !)

Smá...

...góður maður. Hellingur af góðum mat, fáranlega mikið af góðum mat. RoSaLeGa góður matur. Var ég búin að nefna það að það var gúffað í sig eins og það væru jólin af góðum mat. Tilefnið var reyndar að tengdapabbi átti afmæli um helgina og fórum við á Hótel Sögu til að gera okkur dagamun. Ég mæli hiklaust með hlaðborðinu þar en bara vera viss um að einhver gaur á símanum sem tekur niður borðapantanir hafi alveg á hreinu hvenær veitingastaðurinn opnar. 

Og smá...


...jóla jóla. Ekki svo að skilja að ég sé byrjuð að undirbúa jólin. Neihei. Langt í frá. Ég hef heldur engan áhuga að vera þessi skipulagða sem er búin að redda jólagjöfunum í ágúst og skreyta húsið hátt og lágt fyrsta í aðventu. En ég skrapp aðeins á bókasafnið til að finna eitthvað að lesa og sá þá að starfsfólkið var búið að taka fram jólatímaritin. Æi, það er svo mikil rómantík og yndislegheit að láta sig dreyma.

17. október 2013

Vetrarfrí

Kannski...
...verður tími til að drekka kaffið sitt í næði

Kannski...
...verður tími til að leika sér

Kannski...
...verður tími til að lesa

Kannski...
...verður tími til að hekla

Kannski...
...umm, já kannski...

11. október 2013

Bleikt
Nú í október er árverknisátak gagnvart krabbameinsleit hjá konum. 
Allir vinnustaðir með á nótunum, allir mæta í einhverju bleiku.
Hér er mín útfærsla.

"twoboobieswitharibbon"